Hæstiréttur er í tómu tjóni

Íslenskt dómskerfi varð fyrir enn einu áfallinu í dag þegar Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi Ísland brotlegt við mannréttindasáttmála Evrópu. Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans, hafði þá sigur í máli sínu gegn íslenska ríkinu. Hæstiréttur Íslands snéri við sýknudómi gagnvart henni og dæmdi hana seka en nú er komið á daginn að sá dómur er rangur og Sigríður Elín hefur afplánað dóm sem hún átti aldrei að fá.

Ekki þarf að fara um það mörgum orðum hve alvarlegt ástand er orðið í dómstólakerfi Íslands. Sigríður Andersen klúðraði skipan dómara í Landsrétt sem olli miklu uppnámi og leiddi til þess að hún hrökklaðist úr embætti dómsmálaráðherra í fyrra. Málið er nú til meðferðar hjá Mannréttadómstóli Evrópu og Landsréttur hefur verið hálflamaður vegna vanhæfismála af þessum sökum.

Mörg mál af svipuðu tagi og Sigríður Elín vann í dag bíða nú dóms hjá Mannréttindadómstólnum. Ætla má að niðurstaða þeirra flestra verði með sama hætti og mál Sigríðar Elínar. Hæstiréttur Íslands gæti orðið fyrir hverju áfallinu á fætur öðru vegna þessa. Óhætt er að hafa miklar áhyggjur af trúverðugleika réttarins sem virðist hafa farið alvarlega út af sporinu í dómum sínum um mál tengd bankahruninu. Alla vega svo alvarlega að Mannréttindadómstóllinn telur að málsmeðferð hans stangist á við ákvæði Mannréttindasáttmálans.

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi Hæstaréttardómari, hefur ítrekað bent á að ekki sé tækt að kveða upp dóma sem byggjast á einhverju öðru en lögum landsins. Hann hefur ekki uppskorið miklar þakkir fyrir að viðra þær skoðanir. Nú er að koma á daginn að hann virðist hafa haft nokkuð til síns máls.

Á sama tíma og trúverðugleiki dómstóla landsins verður fyrir hverju áfallinu á fætur öðru velur Hæstiréttur að efna til mannfagnaðar til að fagna 100 ára afmæli réttarins og láta birta uppskrúfuð viðtöl við núverandi og fyrrverandi dómara. Í ljósi margvíslegra áfalla hefði verið smekklegra að minnast tímamótanna á hófstilltari hátt.