Hægrimenn ósáttir: „Meginmarkmið Bjarna sé að halda embættismönnum ríkisins ánægðum“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra fær á baukinn hjá Tý í nýjasta hefti Viðskiptablaðsins. Hægrimennirnir sem skrifa nafnlausa dálka Viðskiptablaðsins hafa til þessa verið þekktastir fyrir að gagnrýna alla aðra en forystu Sjálfstæðisflokksins, steininn tók þó úr þegar Bjarni sagðist ekki ætla að slá á puttana á ÁTVR sem hafa kært samkeppnisaðila sína.

„Það þyrfti meira pláss en rúmast í þessum dálki til að rifja upp þær breytingar sem hafa verið boðaðar á áfengislöggjöfinni á liðnum árum en aldrei gengið eftir. Þar er bara við stjórnmálin að sakast. Þó að boðbera frelsisins sé ekki að finna á meðal stjórnmálamanna eru þó sem betur fer aðilar sem taka það verkefni að sér. Arnar Sigurðsson, eigandi Sante, er einn þeirra og hann hefur sett á fót franska vefverslun sem afhendir vörur sínar hér á landi. Það er í samræmi við þau furðulegu lög sem hér gilda,“ segir Týr.

„Hér hafði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sem alla jafna vill kenna sig við frjálslyndi, kjörið tækifæri til að styðja við frjálslynda frumkvöðlastarfsemi og slá á puttana á ofríkistilburðum ríkisvaldsins.“

Er svo vitnað í viðtal MBL við Bjarna: „Í samtali við mbl.is í vikunni kaus Bjarni frekar að verja kerfið og sagði ÁTVR ekki hafa farið út fyrir valdsvið sitt með því að „spyrja spurninga“ og það væri ekkert óeðlilegt við það að koma því á framfæri ef menn teldu sig hafa vísbendingar um skattalagabrot.“

Hann hafi svo dregið aðeins í land: „Í samtali við Dagmál Morgunblaðsins reyndi Bjarni að bæta fyrir þessi undarlegu ummæli sín með því að segjast fagna netverslun með áfengi. Það eru aðeins orðin tóm, enda hafa engar breytingar verið gerðar á áfengislöggjöfinni í hans tíð.“

Týr skýtur svo föstum skotum á Bjarna, slíkt er óhugsandi nema það sé mikil kergja meðal hægrimanna. „Það virðist sem meginmarkmið Bjarna sé að halda embættismönnum ríkisins ánægðum. Hann sendi kjósendum sínum kaldar kveðjur með fyrrnefndum um ummælum til varnar ÁTVR. Þær kveðjur verða ekkert mikið hlýrri þótt reynt hafi verið að bæta upp fyrir þau tveimur dögum síðar.“