Gylfi bendir á magnaða staðreynd um íslenska forseta

Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og fyrrverandi ráðherra, bendir á skemmtilega staðreynd um íslenska og bandaríska forseta.

„Allir forsetar lýðveldisins hafa verið hægrihentir. Sex af síðustu tólf forsetum Bandaríkjanna hafa hins vegar verið vinstrihentir,“ segir Gylfi í hinum mjög svo áhugaverða hóp Algjörlega óáhugaverðar stjórnmálaupplýsingar.

Á lýðveldistíma Íslands hafa sex forsetar verið við völd og miðað við það kemur kannski ekki á óvart að allir hafi þeir verið rétthentir. Kannanir hafa bent til þess að hlutfall örvhentra í samfélaginu sé um 10 prósent. 

Gylfi er spurður að því í umræðum undir þræðinum hvort hann haldi að þetta skýri eitthvað. Svar Gylfa er stutt og laggott. „Þetta skýrir án efa margt. Ég er bara ekki viss um hvað.“