Gullið tækifæri fyrir einangrunarsinna

Birgir Þórarinsson, fyrrum þingmaður Miðflokksins og núverandi félagi í þingflokki sjálfstæðismanna, er sakaður um svik við kjósendur sína í Suðurkjördæmi. Og vitanlega er það rétt að hann bauð sig fram í nafni Miðflokksins og nýtti sér óeigingjarnt sjálfboðaliðsstarf stuðningsmanna flokksins til að fleyta sér á þing.

Hið næsta sem sem gerðist var að hann vitnaði í þriggja ára gamalt mál sem ástæðu trúnaðarbrests sem hafi neytt hann til að segja nú skilið við Miðflokkinn, innan við tveimur vikum eftir kosningar. Ekkert sem gerðist eftir kosningar olli skilnaðinum við Miðflokkinn. Bersýnilega hefur alltaf staðið til hjá honum að söðla um strax eftir kosningar. Tímasetningin hentaði bara ekki fyrr en núna, vegna þess að í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn hefði Birgir ekki náð á þing. Hann hefði ekki komist á lista.

En eru kjósendur Birgis eitthvað verr settir með hann í Sjálfstæðisflokknum en Miðflokknum? Er mikill munur á þessum flokkum? Báðir eru þeir hatrammir gegn ESB, ástríðufullir í stuðningi við krónuna, óbreytt kerfi í landbúnaði og gjafakvóta til stórútgerðarinnar. Báðir flokkar eru órofa í stuðningi við stórfellt misvægi atkvæða.

Raunar má furða sig á að þingflokkur Miðflokksins skuli ekki hafa gengið í einu lagi í Sjálfstæðisflokkinn. Bergþór Ólason er gamall fyrrum ungur sjálfstæðismaður. Og formaðurinn, Sigmundur Davíð, ætti að kunna vel við sig hjá sjöllum; kollegi Bjarna Ben úr Panamaskjölunum, peningamaður og fjárfestir. Hann smellpassar inn í Sjálfstæðisflokkinn. Með Miðflokkinn allan innanborðs væri flokkurinn kominn með 19 þingmenn og allt á réttri leið.

En ekki þarf að nema staðar þarna með sameiningar jaðarflokka, sem standa gegn ESB og stöðugum gjaldmiðli en styðja íslensku krónuna, úrelt landbúnaðarkerfi, gjafakvóta og misvægi atkvæða. Í raun er fátt sem stendur í vegi fyrir því að laskaðir Vinstri grænir skelli sér með í partíið. Flokkar Katrínar Jakobsdóttur, Sigmundar Davíðs og Bjarna Ben eru samstiga í öllum ofangreindum málum. Eitthvað þyrfti að slétta yfir ágreining í umhverfismálum og varðandi einkarekstur í heilbrigðiskerfinu en það er ekkert semlausnamiðað fólk lætur stoppa sig ef mikið liggur við.

Katrín gæti þá tekið átta manna þingflokk sinn með inn í Sjálfstæðisflokkinn, sem yrði orðinn eins og best var á gullaldarárum hans – kominn í 27 þingmenn. Eftir það gæti Bjarni Benediktsson hætt í stjórnmálum og eftirlátið Katrínu Jakobsdóttur formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hann er hvort eð er þegar búinn að afhenda henni forsjá yfir stefnu flokksins.

Með sameiningu þessara þriggja flokka undir forystu Katrínaryrðu einangrunarsinnar í íslenskum stjórnmálum loks saman komnir undir einn hatt undir forystu vinsælasta stjórnmálamannsins með 27 þingmenn og hreinan meirihluta í augsýni í næstu kosningum. Það gæti varla klikkað ...

- Ólafur Arnarson