Guðmundur í brimi: „þeir urðu þreyttir á mér og sögðu; þú fæddist of seint“

„Þeir Kristján Ragnarsson og Halldór Ásgrímsson voru orðnir ansi þreyttir á mér og sögðu svo reiðir: Þú fæddist of seint. Þú verður að kaupa kvóta ef þú vilt eignast kvóta,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, meðal annars í yfirgripsmiklu viðtali í þættinum Viðskipti með Jóni G. á Hringbraut en þátturinn er á dagskrá kl. 20:30 í kvöld.

Þetta var árið 1986, eða tveimur árum eftir að kvótakerfið var sett á. Framhaldið þekkja flestir; Guðmundur er núna sá einstaklingur í sjávarútveginum sem ræður yfir hvað mestum kvóta. Hann hefur keypt kvóta fyrir tugi milljarða króna, sem og selt, samkvæmt því fiskveiðistjórnunarkerfi sem stjórnvöld settu á árið 1984 og ákváðu síðar að aflaheimildir yrðu framseljanlegar svo hægt væri að hagræða í greininni.

Eignarhlutur hans í Brimi er núna um 46% í gegnum fyrirtæki hans Útgerðarfélag Reykjavíkur og hlutur Hjálmars bróður hans í Brimi er tæplega 7 % í gegnum félagið GK fiskverkun.

En víkjum þá aftur til ársins 1986. Guðmundur var engan veginn sáttur við að fiskvinnsla foreldra hans hefði ekki fengið neinn kvóta heldur var veiðirétturinn eingöngu settur á skip þegar kvótakerfið var sett á árið 1984. „Og á þessum tíma voru bæjarútgerðir og ríki stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi.“

Guðmundur segir að þegar hann hafi komið heim frá námi í Bandaríkjunum árið 1986 þar sem hann hafði kynnt sér kvótakerfið og hagkvæmni þess hafi hann sest niður með föður sínum og bróður, Hjálmari, og sagt: „Annað hvort verðum við að byrja á að kaupa kvóta og veiðirétt eða ég er farinn aftur til Ameríku. Ég ætla ekki að vera einhver vælukjói hér á Rifi næstu tuttugu árin!“

Fyrirtækið hóf í kjölfarið að kaupa og byggja upp kvóta auk þess sem smíði hófst á tveimur stórum línubátum, Tjaldi og Tjaldi II. Bátarnir lönduðu aflanum ýmist ferskum á fiskmarkaði eða frystum á erlendan markað.

Útdráttur:

„Ég sagði þeim að ég ætlaði ekki að vera einhver vælukjói hér á Rifi næstu tuttugu árin!“