Guðmundur hitti mann sem var útskúfaður úr þorpinu: „Og þorpið þagði“

„Hitti mann á dögunum sem sagði mér frá því hvernig honum var bolað úr þorpinu sínu af valdamiklum kvótakóngi fyrir 20 árum. Maðurinn hafði beitt sér í stéttarfélagi bæjarins og kjarabaráttu. Kvótakallinn svaraði með því að hafa af honum lífsviðurværið.“

Svona hefst frásögn Guðmundar Gunnarssonar, frambjóðanda Viðreisnar og fyrrverandi bæjarstjóra Ísafjarðar, sem hann birtir á Twitter.

Kvótakallinn sagði manninum hreint út að hvorki hann né afkomendur hans gætu vænt þess að fá vinnu í plássinu. „Hann myndi sjá til þess. Maðurinn sá sína sæng upp reidda, seldi húsið og flutti með fjölskylduna. Reif upp ræturnar.

Var hrakinn burt úr bænum sem hann elskaði vegna þess að hann þorði að stugga við freka kallinum sem í krafti stöðu sinnar gat troðið samferðafólk sitt ofaní svaðið. Ef honum sýndist svo. Til að verja eigin vald og yfirburðastöðu,“ segir Guðmundur.

„Og þorpið þagði. Tók sér þannig stöðu með kvótakalli sem kippti fótunum undan verkamanni sem þorði að segja upphátt það sem aðrir hvísluðu.“

Guðmundur segir útskúfun ekki vera nýtt fyrirbæri. „Meðvirkni er það ekki heldur. Þetta mein samfélaganna á sér langa og rótgróna sögu. Tekur á sig sínar svæsnustu myndir í smæðinni,“ segir Guðmundur. „Aðrar sögur af ógeðfelldu ofbeldi í þorpunum skera hins vegar úr manni hjartað. Sérstaklega þegar það beinist gegn börnum.“

Guðmundur segir til sögur af einstaklingum sem hrökkluðust úr þorpinu sínu. „Eins og maðurinn. Niðurbrotin og útskúfuð. Beitt ofbeldi í heimabænum en þurftu svo ofan í allan sársaukan að bera sökina og skömmina. Vegna þöggunar og tregðu samfélagsins til að standa með þeim. Gegn gerendum,“ segir hann. „Þeirra sögur eru miklu alvarlegri. Hreinn viðbjóður. Enda rista þeirra sár dýpra. Útskúfunin alger og ömurleg. Þar er ég jafn sekur og aðrir sem vissu af þessu en gerðu ekkert. Sögðu ekkert.“

Hann segir kominn tíma á uppgjör. „Þess vegna skipta bylgjur frásagna máli. Samfélögin þurfa að horfa stíft í eigin spegil. Við þurfum að horfa í spegil. Viðurkenna og lofa að bæta okkur. Læra af reynslunni og koma í veg fyrir að ofbeldið haldi áfram að grassera,“ segir Guðmundur. „Þess vegna eigum við að hlusta, trúa og taka það alvarlega þegar fólk hefur hugrekki til að rjúfa þögnina. Eftir allt sálarstríðið sem meðvirknin og þögnin nærði. Það er það allra minnsta sem við skuldum þeim.“