Guðmundur Andri: Bjarni lyfti glasi með vinum á meðan þjóðlífið var lamað

Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar og rithöfundur, segir umræðuna um gleðina í Ásmundarsal vera á villigötum. Það skipti engu máli hvað lögreglumenn hafi sagt á vettvangi, heldur að Bjarni Benediktsson hafi verið á staðnum þegar strangt samkomubann var í gildi.

Eftirlitsnefnd lögreglu rakti samtal lög­reglu­manna á vett­vangi í skýrslunni. Þar má heyra á tal tveggja lög­reglu­manna:

Lögreglumaður 1. „Hvernig yrði frétta­til­kynningin... 40 manna einka­sam­kvæmi og þjóð­þekktir ein­staklingar..., er það of mikið eða?“

Lögreglumaður 2: „Ekki fyrir mig, ég myndi lesa það...“ og einnig: „Ég þekkti tvær stelpur þarna uppi og þær eru báðar sjálf­stæðis...svona ... frama­potarar eða þú veist.“

Þessa hátt­semi lög­reglu­mannanna á vett­vangi telur nefndin geta verið á­mælis­verða.

Guðmundur Andri segir þetta ekki koma málinu við.

„Fjármálaráðherra og einn þriggja leiðtoga ríkisstjórnarinnar reyndist vera staddur í mannfagnaði á Þorláksmessu síðastliðinni á sama tíma og strangt samkomubann var í gildi samkvæmt reglugerð þeirrar hinnar sömu ríkisstjórnar,“ segir hann á Facebook. „Þetta samkomubann var afar íþyngjandi fyrir almenning: fólk gat ekki haldið jólaboð, stórfjölskyldur gátu ekki hist, gamalt fólk var fast á hjúkrunarheimilum eða heima hjá sér, tónleikar fóru ekki fram, veitingastaðir voru lokaðir, þjóðlífið var nánast lamað: en það var sem sagt hægt að halda mannfagnað í Ásmundarsal með því að kalla hann ýmist sýningu, kynningu, opnun eða annað eftir því hvað klukkan var.“

Hann bætir við: „Og þar var leiðtogi ríkisstjórnarinnar sem sé að lyfta glasi í góðra vina hópi. Umræðan nú snýst um það hvort lögreglumenn sem komu á vettvang hafi haft óviðurkvæmileg orð um þetta í sinn hóp.“

Tónlistarmaðurinn Jón Ólafsson tekur undir þetta og segir: „Sammála þessu. En að sama skapi valda vinnubrögð lögreglunnar vonbrigðum. Fara undan í flæmingi með að skila upptökum og svo þegar það er gert þá er búið að þurrka út ákveðna hluti. Ekki er það nú beint til að auka traust manns.“