Guðlaugur Þór sigrar ávallt í átökum innan flokksins – Bjarni Ben er alltaf í vörninni

Sagan sýnir að Guðlaugur Þór Þórðarson, sem býður sig fram til formanns í Sjálfstæðisflokknum, hefur alltaf borið sigur úr býtum í átökum innan flokksins.

Fyrst er til að taka að árið 1993 vann hann sigur í kosningu um formannssæti í Sambandi ungra sjálfstæðismanna, SUS, þá 25 ára. Guðlaugur Þór fékk 53 prósent greiddra atkvæða en Jónas Fr. Jónsson hlaut 47 prósent. Þetta vakti athygli og þótti vel af sér vikið. Jónas Fr. hafði gegnt formennslu í Stúdentaráði og átti ættir að rekja til innsta hrings Sjálfstæðisflokksins. Hann er sonur Jóns Magnússonar, hrl., sem var formaður SUS á sínum tíma og síðar alþingismaður. Móðir hans er Halldóra Rafnar, systir Ingibjargar heitinnar Rafnar, eiginkonu Þorsteins Pálssonar. Afi Jónasar Fr. var Jónas Rafnar, alþingismaður og bankastjóri. Þarna skoraði Guðlaugur Þór „flokkselítu“ á hólm og hafði sigur.

Árið 1998 tók Guðlaugur Þór þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar í Reykjavík og náði kjöri. Hann sat í borgarstjórn í átta ár. Hann var svo kjörinn til setu á Alþingi árið 2003 og ávallt síðan. Guðlaugur Þór hefur lengst af verið fyrsti þingmaður annars hvors Reykjavíkurkjördæmanna.

Í prófkjöri flokksins haustið 2006, fyrir alþingiskosningarnar vorið 2007, gaf Guðlaugur Þór kost á sér í annað sæti, sem þýðir að leiða annan hvorn lista flokksins í Reykjavík, á móti Birni Bjarnasyni ráðherra sem sat í því sæti. Þetta þótti djarft hjá hinum unga þingmanni. Guðlaugur Þór bar sigurorð af Birni og leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í þingkosningunum 2007. Í kjölfarið tók hann við embætti heilbrigðisráðherra.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn komst næst til valda, eftir hrunið, var Guðlaugur Þór ekki valinn til að gegna ráðherraembætti. En Illugi Gunnarsson varð þá ráðherra fyrir flokkinn í Reykjavík í þrjú ár þar til ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hrökklaðist frá völdum. Síðan hvarf hann af sviði íslenskra stjórnmála. Guðlaugur Þór tók við embætti utanríkisráðherra árið 2017 og hefur gegnt ráðherraembætti síðan.

Vorið 2021 fór fram prófkjör í Reykjavík vegna skipan á lista flokksins í kosningunum haustið 2021. Guðlaugur Þór bauð sig fram til að gegna áfram stöðu oddvita flokksins í Reykjavík. Þá gerði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir harða atlögu að Guðlaugi Þór og ætlaði að vinna af honum forystusætið. Hún var studd af „flokkselítunni“, Bjarna Benediktssyni, Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, Birgi Ármannssyni og Jóni Gunnarssyni – en allt kom fyrir ekki. Guðlaugur Þór sigraði eftir harða kosningabaráttu.

Og nú tekst hann á við sjálfan formanninn, Bjarna Benediktsson.

Öndvert við Guðlaug Þór hefur Bjarni lengst af verið varnarmegin á sínum pólitíska ferli, rétt eins og hann var sem ungur maður í fótboltanum hjá Stjörnunni. Þar var hann aftasti maður í vörn, en Stjarnan keppti í næst efstu deild áknattspyrnuferli hans. Bjarni kom inn á þing árið 2003 fyrir Suðvesturkjördæmi. Í kosningunum 2007 sat hann í öðru sæti á eftir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, en flokkurinn náði þá glæsilegum árangri í kjördæminu, 43 prósenta fylgi. Síðan þá hefur Bjarni leitt lista flokksins í kjördæminu. Í síðustu kosningum var fylgið komið niður í 30 prósent.

Bjarni var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins vorið 2009. Hann tók við formennsku við erfiðar aðstæður eftir hrunið og fylgi flokksins á landsvísu fór þá niður í 23,7 prósent sem var hið lægsta í Íslandssögunni. Hrunið var flokknum erfitt. Stuðningsmenn flokksins væntu þess hins vegar að hann næði fyrri styrk þegar frá liði, en það hefur ekki gerst. Í kosningunum haustið 2021 reyndist fylgi hans á landsvísu einungis 24,4 prósent eða 0,7 prósentustigum meira en strax eftir hrun. Er það ekki síst vegna þessa slaka fylgis sem margir dyggir flokksmenn Sjálfstæðisflokksins eru ósáttir með þróun mála.

Bjarni Benediktsson hefur þrívegis áður þurft að keppa um formannsembættið í flokknum. Hann hefur haft betur gegn Kristjáni Þór Júlíussyni, Pétri Blöndal og Hönnu Birnu á landsfundum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur átt sæti í ríkisstjórn síðustu níu árin. Bjarni hefur gegnt embætti fjármálaráðherra allan tímann ef undan er skilinn 10 mánaða tími þegar hann var forsætisráðherra í ríkisstjórn sem sprakk haustið 2017 af heldur litlu tilefni. Eftir það var efnt til alþingiskosninga sem leiddu til myndunar vinstri stjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Er það í fyrsta skiptið sem sósíalisti gegnir embætti forsætisráðherra. Mörgum sjálfstæðismanninum sárnaði að flokkurinn sætti sig við stjórnarsamstarf sem leitt væri af formanni Vinstri grænna en ekki af Bjarna Benediktssyni, formanni stærsta stjórnmálaflokksins.

Að halda Sjálfstæðisflokknum svona lengi í ríkisstjórn þykir vera varnarsigur fyrir Bjarna, rétt eins og að standa af sér mótframboð til formanns á landsfundi eins og hann hefur gert þrívegis.

Næsta sunnudag verður því svarað hvort Bjarni vinnur enn á ný varnarsigur eða hvort Guðlaugur Þór Þórðarson heldur áfram sigurgöngu sinni innan Sjálfstæðisflokksins.

- Ólafur Arnarson