Guðlaugur Þór lagði flokkseigendafélagið

Sigur Guðlaugs Þórs Þórðarsonar í prófkjörinu er stærri en virðist í fljótu bragði. Hann hafði betur þrátt fyrir að nánast allt „flokkseigendafélag“ Sjálfstæðisflokksins ynni ötullega gegn honum.

Fáum dylst að Bjarni Benediktsson, formaður, studdi Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur sem og varaformaðurinn. Ritari flokksins var einnig stuðningsmaður hennar. Sama gildir um Birgi Ármannsson, formann þingflokksins, sem sjálfur tók þátt í prófkjörinu og sóttist eftir þriðja sæti en hafnaði í því sjötta.

Stuðningsmenn Áslaugar Örnu hvöttu fólk til að kjósa hana í efsta sætið, Birgi í annað, Hildi Sverrisdóttur í þriðja og Friðjón Friðjónsson í fjórða sæti. Ekkert af þessu gekk eftir.

Listi flokksins í öðru Reykjavíkurkjördæminu verður skipaður Guðlaugi Þór í efsta sæti og Diljá Mist Einarsdóttur í öðru sæti. Í hinu kjördæminu verður Áslaug Arna í efsta sæti og Hildur Sverrisdóttir í öðru sæti. Brynjar Níelsson hefur lýst því yfir að hann taki ekki sæti á lista og því má búast við að Birgir Ármannsson verði í þriðja sæti á lista Guðlaugs Þórs og Kjartan Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúi, í þriðja sæti á lista Áslaugar Örnu.

Í síðustu Alþingiskosningum fékk Sjálfstæðisflokkurinn samtals fimm þingmenn kjörna í Reykjavík þannig að ljóst er að flokkurinn þarf að bæta stöðu sína til að skila bæði Birgi og Kjartani á þing.

Fróðlegt verður að fylgjast með því hvernig þessum tveimur andstæðu fylkingum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í mun ganga að starfa saman í aðdraganda komandi þingkosninga..

- Ólafur Arnarson