Glúmur fengið upp í kok: „Að móðir mín fái ekki frið á efri árum er ófyrirgefanlegt“

Glúmur Baldvinsson, sonur Jóns Baldvins Hannibalssonar og Bryndísar Schram, er afar ósáttur við þá ákvörðun Ríkissaksóknara að áfrýja sýknudómnum yfir Jóni Baldvin til Landsréttar.

Héraðsdómur sýknaði Jón Baldvin af ákæru um kynferðislega áreitni á Spáni sumarið 2018. Hann var sýknaður vegna sönnunarskorts og þá var eindregin neitun hans studd framburði tveggja vikna.

„Nú liggur fyrir að sérstökum ríkissaksóknara hugnast ekki að JBH hafi verið sýknaður í héraðsdómi. Þrátt fyrir að málatilbúnaður sé hrein og bein firra. Þá heldur hún áfram. Maður spyr sig hvort hún sé undir áhrifum Öfga eða hvort hún velti því eiginlega fyrir sér hvernig hún verði að lokum dæmd af verkum sínum. Því í slíku embætti sem þessu verðum við að hugsa rökrétt en láta eigi tilfinningar og hatur ráða,“ sagði Glúmur í færslu á Facebook-síðu sinni um helgina.

Hann segist hafa fengið skilaboð frá einum af fremstu lögfræðingum þjóðarinnar, einstaklingi sem hefur ekkert með málið að gera en var ómyrkur í máli. Skilaboðin voru svohljóðandi, að sögn Glúms:

„Mikið skelfing leggst lítið fyrir Ríkissaksóknara að áfrýja máli föður þíns. Sýnir að þær þora ekki öðru fyrir öfgaliðinu. Þetta mál er svo gjörsamlega glórulaust sem mest má vera. Þeim hlýtur að vera það ljóst stelpunum hjá Ríkissaksóknara. Þvílík hneisa.“

Glúmur bætir svo við í athugasemdum við færsluna þar sem hann segir:

„Maður spyr sig. Hvað vill þetta fólk í raun? Að faðir minn verði fangelsaður og brenndur á Þingvöllum? Að móðir mín verði brennd með honum og brennan kölluð Jónsbrennan? Hvað í raun gengur ríkissaksóknara til? Hversu lengi þarf fjölskyldan að standa í þessu rugli? En mér er sama. Haldið áfram en þið munuð aldrei sigra.“

Glúmur segir svo síðar að í gegnum tíðina hafi hann þróað með sér þykkan skráp sem erfitt er að komast inn fyrir.

„Og ég hefði kannski aldrei þurft að hafa slíkan skráp að öllu óbreyttu. Faðir minn er vitaskuld miklu sterkari. En að móðir mín fái ekki frið á efri árum er ófyrirgefanlegt. Ég mun aldrei gleyma þessari atlögu að lífi minna heittelskuðu. Aldrei. Shame on you. Og ef við værum stödd á víkingaöld þá væri ég nú að safna liði og vopnum.“