Glúmur af­boðaður: Fékk mömmu til að velja á mig föt

Það er ekki tekið út með sældinni að vera í fram­boði til þings og segir Glúmur Bald­vins­son, fram­bjóðandi Frjáls­lynda í­halds­flokksins, frá miður skemmti­legri reynslu sinni á Face­book.

Glúmi var boðið í kapp­ræður flokks­leið­toga á Stöð 2 á fimmtu­daginn og réðst af þeim sökum í undir­búnings­vinnu.

„Svo ég fór í klippingu í dag og lét sverta á mér skeggið og fékk mömmu til að velja á mig föt og þjálfa mig í kurteisi. Það tók langan tíma enda ó­vanur maður í kurteisi,“ segir Glúmur.

Þegar hann hafi svo náð tökum á kurteisi og lofað að mæta ekki undir á­hrifum fékk hann þau skila­boð frá Stöð 2 að hann ætti ekki að mæta.

„Fæ ekki að vera með. Þar með er öll þjálfunin fyrir bí og skemmtana­gildi þáttarins ó­nýtt. En lifi lýð­ræði hinna leiðin­legu og lof­orða­flóðið og bara good luck. Til hamingju Ís­land. Ég sem var farinn að drepast úr kurteisi.“

Í um­mælum við færsluna er Glúmur spurður hvernig stóð á af­bókuninni og segir hann á­stæðuna slæmt gengi flokksins í skoðana­könnun Maskínu.