Gleðifréttir fyrir Dag borgarstjóra: Eyþór heldur áfram

Eyþór Arnalds staðfesti í Silfri ríkissjónvarpsins í dag að hann muni sækjast eftir því að leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í komandi borgarstjórnarkosningum. 
Þetta eru góðar fréttir fyrir andstæðinga flokksins í borginni vegna þess að Eyþóri hefur algerlega mistekist að leiða minnihlutann á yfirstandandi kjörtímabili. Borgarstjórnarflokkurinn er klofinn milli Eyþórs og Hildar Björnsdóttur og andstaða þeirra, Vigdísar Hauksdóttur og Kolbrúnar Baldursdóttur í borgarstjórn hefur einkennst af svekkelsi, nöldri og marklausum upphlaupum.
Talið er fullvíst að flokkseigendur Sjálfstæðisflokksins muni bjóða fram Hildi Björnsdóttur gegn Eyþóri til að leiða listann. Það mun vera vilji formanns, varaformanns og ritara flokksins, sama hóps og studdi Áslaugu Örnu gegn Guðlaugi Þór – og tapaði – í prófkjörinu síðast liðið sumar. Guðlaugur Þór styður Eyþór eins og síðast.
Gera má ráð fyrir blóðugum slag milli Eyþórs og Hildar vegna forystusætisins en flokkseigendafélagið sýndi það í prófskjörsslagnum milli Guðlaugs Þórs og Áslaugar Örnu að það vílar ekki fyrir sér að sækja stuðningsmenn annarra flokka til þátttöku í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins til að ná sínum vilja fram. Slíkt dugar bara ekki til gegn öflugri kosningavél Guðlaugs Þórs og stuðningsmanna hans innan flokksins.
Eyþór mun vinna slaginn við Hildi og leiða lista flokksins til áframhaldandi eyðimerkurgöngu í borginni. Eyþór og Sjálfstæðisflokkurinn verða áfram í minnihluta á næsta kjörtímabili og raunar um fyrirsjáanlega framtíð. Valdatími flokksins í Reykjavík er endanlega liðinn.
Dagur Eggertsson borgarstjóri hlýtur að fagna þessari framvindu innan Sjálfstæðisflokksins og horfa rólegur til áframhaldandi setu á valdastóli sem borgarstjóri í Reykjavík.
- Ólafur Arnarson