Gísli Marteinn setti Twitter á hliðina: „Veit einhver hvað við erum að fara drepa mörg lömb næstu vikurnar?“

Sjónvarpsmaðurinn og borgarfulltrúinn fyrrverandi, Gísli Marteinn Baldursson, fékk mikil viðbrögð við færslu sem hann setti á Twitter-síðu sína í gær.

„Veit einhver hvað við erum að fara að drepa mörg lömb næstu vikurnar? Það er akkúrat ekkert mál að velja að borða ekki kjöt. Fullt af frábærum mat til sem krefst þess ekki að við drepum viti borin og góð dýr með tilfinningar og karakter,“ sagði Gísli Marteinn í færslu sinni.

Eins og við var að búast voru skoðanir um þetta skiptar meðal fólks þar sem dýraverndunarsinnar og kjötætur tókust á í athugasemdakerfinu.

Einn spurði Gísla Martein hvort hann vildif rekar að þau lifðu og breyttu landinu í vindbarða eyðimörk á fimm árum. Gísli Marteinn svaraði um hæl og sagði:

„Ef íslendingar borðuðu kettlinga og sum okkar værum að mótmæla því, þá yrði einmitt sagt: Og hvað, láta þá lifa og éta alla fugla og mýs sem til væru í landinu og landið yrði fugla og músalaust? Sumsé, ég held að framleiðsla tugþúsunda lamba hætti þegar við hættum að borða þau.“

Áslaug Birna sagði það auðvelt val að borða ekki kjöt. „Það telst bara vera aumingjaskapur í ríki eitraðrar karlmennsku að borða ekki kjöt og á meðan hún ræður ríkjum munu booyyyys ekki prófa grænmetis/vegan. Nú verður einhver brjálaður við mig,“ sagði hún.

Gísli Marteinn tók að hluta undir þetta en sagði samt: „En fullt af flottum booooyyyyys samt sem eru hættir að borða kjöt. Bara lélegir kokkar og wankers sem fatta ekki hvað það er sjúklega góður matur fyrir utan dýrahræ.“

Kjötætur og grilláhugamenn létu ekki sitt eftir liggja. „Gleðin við að grilla gott kjöt trompar allt annað,“ sagði Björn til að mynda.