Gísli Marteinn með særindi í hálsi vegna svif­ryks – „Ekkert að því að banna nagla­dekk“

„Ég labbaði að Hlemmi og aftur til baka heim og ég fann fyrir sárindum í öndunar­vegi þó ég sé ekki með astma eða neitt slíkt,“ segir Gísli Marteinn Baldurs­son, sjón­varps­maður og fyrr­verandi borgar­full­trúi, í við­tali í Frétta­blaðinu í dag.

Styrkur svif­ryks á höfuð­borgar­svæðinu var mjög hár í gær sem má að líkindum rekja að stóru leyti til bíla sem ekið er um götur borgarinnar á nagla­dekkjum. Enginn snjór er á höfuð­borgar­svæðinu en samt sem áður eru margir komnir á nagla­dekk, enda þau leyfi­leg á þessum árs­tíma.

Svava S. Steinars­dóttir hjá Heil­brigðis­eftir­liti Reykja­víkur segir við Frétta­blaðið að í gær hafi í fyrsta skipti verið um­ferðar­tengd mengun. Búast má við á­fram­haldandi svif­ryksmengun í dag enda úr­komu­laust og mjög stillt veður í kortunum.

Gísli Marteinn er mikill tals­maður annarra sam­gangna en einka­bílsins og bendir hann á að engin þörf sé að vera á nagla­dekkjum miðað við nú­verandi að­stæður á höfuð­borgar­svæðinu.

Hann segir að er­lendar rann­sóknir bendi til þess að þeir sem búa ná­lægt svif­ryksgötum séu í meiri hættu á að fá Alz­heimer.

„Mér finnst ekkert að því að banna nagla­dekk. Ef Reykja­vík bannar slík dekk þá er ekkert mál að inn­leiða ein­hvers konar kerfi enda fáar borgir sem leyfa nagla­dekk. Þannig að fólki af lands­byggðinni væri kleift að aka inn í borgina án þess að fá sekt. Tregðan yrði að banna nagla­dekk yfir allt Ís­land. Tíðar­farið hefur breyst og dekkin eru orðin betri og mér finnst engin á­stæða til að vera á nagla­dekkjum. Reykja­víkur­borg gæti til dæmis byrjað að banna nagla­dekk í mið­borginni. Það gæti verið gott fyrsta skref, þó gjald­taka á slík dekk sé aug­ljóst fyrsta skref. Svona getur þetta ekki gengið.“