Gífurlega margar tilkynningar um brot á sóttvarnalögum

12. nóvember 2020
19:03
Fréttir & pistlar

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, greinir frá því að um þrjú þúsund tilkynningar hafi borist um brot á sóttvarnalögum frá upphafi faraldursins en þetta kemur fram í frétt Vísis um málið.

Hann segir enn fremur að þrátt fyrir að tilkynningarnar hafi verið margar hafi innan við 200 lokið með því að fólk hafi verið sektað. Flestum tilfellum ljúki einfaldlega með samtali.

Hertar takmarkanir eru nú í gildi innanlands þar sem miðað er við 10 manna samkomubann og tveggja metra fjarlægðatakmarkanir. Þá hefur fyrirtækjum sem veita þjónustu sem krefst mikillar nándar verið gert að loka.

Reglugerð stjórnvalda er í gildi til 17. nóvember næstkomandi en Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur greint frá því að mögulega verði hægt að hefja tilslakanir þá. Þó þurfi allt slíkt að gerast varlega til að koma í veg fyrir uppsveiflu faraldursins.

Alls greindust 18 ný innanlandssmit síðastliðinn sólarhring en 472 eru nú í einangrun með virkt smit. Alls eru nú 63 á sjúkrahúsi með COVID-19, þar af 59 á Landspítala. Þrír eru nú á gjörgæslu og hafa 25 látist vegna COVID-19 frá upphafi.