Gerir grín að slagorði Sjálfstæðisflokksins: „Eru þau að éta ofskynjunarsveppi?“

Kosningabaráttan fyrir komandi Alþingiskosningar fer senn á fullt enda aðeins fimm mánuðir til kosninga. Flokkarnir eru þegar farnir að birta ýmis kynningarmyndbönd og er Sjálfstæðisflokkurinn engin undantekning í þeim efnum.

Á dögunum birtist Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, í einu myndbandi á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins. Þar talaði Bjarni um að hann vildi „báknið“ burt.

Þetta vakti kátínu margra og var Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi fjölmiðlamaður og stofnandi Sósíalistaflokksins, einn þeirra sem klóruðu sér duglega í kollinum.

„Þetta er örugglega flippaðasta kosningaslagorð sögunnar. Sjálfstæðisflokkurinn, sjálfur höfundur báknsins, óskar þess að sér verði eytt. Þetta er viðlíka og ef Landsvirkjun myndi auglýsa Burt með virkjanirnar! Eða Landssamband bakarameistara auglýstu Burt með brauðið! Hvað er eiginlega á seiði í Valhöll? Eru þau að éta ofskynjunarsveppi meðan þau eru að skipuleggja kosningabaráttuna?“

Báknið burt var slagorð ungra sjálfstæðismanna á árum áður sem börðust mjög gegn auknum umsvifum ríkisins með hugmyndafræði frjálshyggjunnar. Eins og bent var á í úttekt Eyjunnar í fyrra hefur þróunin hjá hinu opinbera verið í þveröfuga átt þrátt fyrir valdasetu Sjálfstæðisflokksins.