Gerður í Blush sögð velta hálfum milljarði á ári: Ársreikningar segja aðra sögu

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eigandi kynlífstækjaverslunarinnar Blush, var á dögum gestur í viðtalsþættinum vinsæla „Podcast með Sölva Tryggva“. Þar fór hún yfir stofnun verslunarinnar þjóðþekktu og hvernig hún fór frá því að vera ein með vörurnar í IKEA-kommóðu og yfir í það að vera með 15-16 manns í vinnu og opna tæplega 900 fermetra kynlífstækjaverslun við Dalveg í Kópavogi.

Í auglýsingu fyrir þáttinn var fullyrt að verslunin Blush velti hálfum milljarði króna á ári sem vakti talsverða athygli.

Frá og með áramótum eru ársreikningar fyrirtækja aðgengilegir frítt og þar með geta allir áhugasamir skoðað rekstur fyrirtækja nánar.

Rekstrarfélag Blush heitir BSH15 ehf. Samkvæmt ársreikningi ársins 2017 var velta fyrirtækisins um 190 milljónir króna, árið 2018 var veltan 200 milljónir króna og árið 2019 var veltan 220 milljónir króna.

Til þess að veltan væri hálfur milljarður króna, eða 500 milljónir, þyrfti því vörusalan að hafa tvöfaldast árið 2020. Í viðtali við Morgunblaðið í lok október á þessu ári sagði Gerður að kynlífstæki væru vissulega að rjúka út á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir. Sagði hún í viðtalinu að veltan væri að aukast um 30% frá fyrra ári.

Sé það rétt ætti velta ársins 2020 að tæplega 290 milljónir króna. Vissulega há upphæð en talsvert frá hinum hálfa milljarði sem hefur verið flaggað í fjölmiðlum.

Þess ber þó að geta að rekstur Blush hefur gengið framúrskarandi vel undanfarin ár. Hagnaður ársins var rúmar 44 milljónir króna árið 2018 en fór upp í 48 milljónir króna árið 2019.