Garðar: „Ég hefði þess vegna getað dáið í sófanum“

Garðar Svansson, fangavörður á Kvíabryggju og trúnaðarmaður fangavarða, fékk heilablóðfall fyrir fimm árum þegar hann var einn á vakt.

Rætt var við Garðar í helgarblaði Fréttablaðsins.

Garðar lýsir kvöldinu en hann mætti á vakt um kvöldið og hafði ekki fundið fyrir neinu óvenjulegu.

„Ég var í símanum við skrif­stofu­stjóra Fangelsis­mála­stofnunar rétt fyrir mið­nætti og þá varð ég var við það að ég missti máttinn í vinstri hendinni,“ segir Garðar og heldur á­fram:

„Ég hélt að þetta væri bara ein­hver þreyta og þegar húsið var orðið ró­legt fór ég að leggja mig. Það var enginn með mér.“

Garðar vaknaði morguninn eftir og græjaði húsið, gerði morgunmat, fór heim og lagði sig aftur. Þegar hann vaknaði var hann enn máttlaus í annarri hendinni.

Hann segir að sér hafi þótt það ó­venju­legt og viður­kennir að hafa gúglað að þetta gæti verið blóð­tappi en hafa aldrei órað fyrir því að þetta væri svo al­var­legt.

„Ég fór á heilsu­gæsluna og sagði við þær í mót­tökunni að ég þyrfti að hitta lækninn. En þær horfðu á mig og sögðu strax: „Eigum við ekki að hringja í sjúkra­bíl?“ Þær sáu strax að eitt­hvað var að og ég vil meina að ef ein­hver hefði verið með mér á vaktinni þá hefðu þau strax séð það sama og þær,“ segir Garðar.

Spurður hvort fangarnir hefðu getað hjálpað segir hann þá löngu komna í ró á þessum tíma og að þeir hefðu ó­lík­lega orðið þess varir ef eitt­hvað hefði verið að hjá honum.

„Ég hefði þess vegna getað dáið í sófanum og það hefði þá upp­götvast þegar fangarnir komu fram um morguninn,“ segir Garðar.

Viðtalið við Garðar má lesa í heild sinni á vef Fréttablaðsins.