Furðufréttastofa rúv

Seint hættir RÚV að koma okkur á óvart með fréttum sínum og fréttamati. Í hádegisfréttum laugardaginn 22. febrúar var slegið upp, framarlega í fréttatímanum, þeirri stórfrétt að Lífeyrissjóður verzlunarmanna ætlaði að endurgreiða nokkrum sjóðfélögum oftekna vexti af sjóðfélagalánum. Að vísu tókst ekki að hlaða í neinn bálköst þarna, þetta voru ekki mörg lán og fjárhæðir afskaplega lágar. En, RÚV reyndi samt! 
Gallinn er bara sá að þetta var ævagömul frétt! Ekki þarf að leita lengi á vef Lífeyrissjóðs verzlunarmanna til að sjá að frétt um þetta var birt þar (og í nokkrum fjölmiðlum strax á eftir) þann 6. janúar síðastliðinn! Fréttin var semsagt nærri sjö vikna gömul, þegar RÚV hrökk upp af sínum doðasvefni til að segja hana!

Ætli við þurfum þá að bíða aðrar sjö vikur eftir að Fréttastofa RÚV uppgötvi fréttina um að þessi sami lífeyrissjóður skilaði metafkomu í fyrra? Stækkaði um 155 þúsund milljónir króna, skilaði raunávöxtun upp á nærri sextán prósent og greiddi meiri lífeyri en nokkurn tíma áður? En, auðvitað er það í stíl við annað í furðulegum fréttaflutningi þessa ríkisapparats að geta í engu þess sem vel er gert, en reyna að magna út úr öllu samhengi eitthvað sem með einbeittum vilja - og sjö vikna bið! - er kannskli hægt að gera tortryggilegt, að minnsta kosti láta líta út fyrir að vera á einhvern hátt neikvætt! Við hljótum öll að styðja við svona ríkisrekstur ekki satt!?