Furða sig á talningaklúðrinu: „Hvar er löggan?“

„Þetta er nú ljóta klúðrið,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi ráðherra, um stöðuna sem nú upp komin um mögulega endurtalningu atkvæða í Alþingiskosningunum. Landskjörstjórn mun funda í dag þar sem rætt verður um endurtalningu í Norðvestur- og Suðurkjördæmi. Miklar hræringar urðu á jöfnunarþingsætum eftir að atkvæði voru talin aftur í Norðvesturkjördæmi, kom svo í ljós að kjörgögn voru ekki innsigluð heldur aðeins geymd í læstum sal milli talninga.

Karl Gauti Hjaltason, frambjóðandi Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, hyggst kæra endurtalningu atkvæðanna og meðferð þeirra í Norðvesturkjördæmi til lögreglu.

Ingibjörg Sólrún segir á Facebook að þarna hafi komið í ljós hversu brýnt er að breyta kosningalöggjöfinni og leiðrétta misvægi atkvæða milli kjördæma og flokka og breyta framkvæmd kosninga. „Hvers vegna í ósköpunum er verið að forfæra atkvæði frá kjörstað og telja þau öll á einum stað í hverju kjördæmi? Því ekki að telja fyrir opnum tjöldum á hverjum kjörstað og gefa almenningi kost á að fylgjast með? Það þarf að tryggja öryggi og eftirlit en það er engin þörf á þessari leyndarhyggju - hún tefur og þvælist fyrir eins og komið hefur í ljós,“ segir hún.

Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði, segir að hann hafi orðið þess var að sumir tali um að klúðrið kunni að stafa af „misheppnuðu misferli“. „Þegar yfirmaður kjörstjórnar, sitjandi héraðsdómari, segist hafa brotið lög samkvæmt hefð, þá þurfa menn að hugsa sinn gang. Hvar er löggan?,“ spyr hann.

Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segir að þetta hljóti að kalla á endurtekna kosningu: „Þetta er með hreinum ólíkindum og hlýtur að kalla á endurtekna kosningu undir annarri yfirstjórn en þeirri sem nú er.“

Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi þingmaður Kvennalistans, styður einnig breytingar á kerfinu: „Það þarf líka að stytta opnun kosningastaða, t.d. til kl 20.00 eða 21.00. Engin þörf á svona langri opnun. Það var opið til 18.00 hjá milljónaþjóðinni Þjóðverjum. Svo þarf að ljúka utankjörstaðaatkvæðagreiðslu daginn fyrir kjördag svo að talning geti hafist fyrr og telja á fleiri stöðum. Dauðþreytt fólk er að telja alla nóttina. Von að gerð séu mistök. Þetta fyrirkomulag okkar er ótrúlega eitthvað svona "kerfiskarlalegt".“