Frið­rik vill fá Lista­há­skólann í Kópa­vog: Ríkið þarf að horfa út fyrir póst­númer 101 og 102

„Að mínu mati er ekkert ó­eðli­legt við það að fjöl­mennasta sveitar­fé­lag landsins sem ekki er borg, hýsi eins og einn öflugan há­skóla,“ segir Frið­rik Sigurðs­son, for­maður Við­reisnar í Kópa­vogi.

Frið­rik skrifar grein á vef Vísis þar sem hann kallar eftir því að bæjar­stjórn Kópa­vogs beiti sér í málinu og skólanum verði fundinn nýr staður í Kópa­vogi.

Á dögunum var greint frá því að Fram­kvæmda­sýsla ríkisins hefði gert frum­at­hugun á á­kjósan­legasta staðnum fyrir fram­tíðar­hús­næði Lista­há­skólans. Er Vatns­mýri talin á­kjósan­legasta stað­setningin.

Lista­há­skólinn hefur glímt við hús­næðis­vanda lengi og er starf­semi hans nú í fjórum húsum í tveimur póst­númerum. Enn á eftir að tryggja fjár­mögnun verk­efnisins en búið er að tryggja fjár­magn í sam­keppni og út­boð.

Frið­rik segir að vinnu­brögð Fram­kvæmda­sýslunnar beri ekki með sér víð­sýni.

„Í ljós kom að hjá þeim reyndust að­eins tveir val­kostir kannaðir, að byggja við SS húsið i Laugar­nesi eða byggja í Vatns­mýrinni. Ekki bera þau vinnu­brögð með sér að víð­sýni hafi ríkt við könnunar­vinnuna,“ segir Frið­rik sem segir ekkert ó­eðli­legt við það að horfa til Kópa­vogs varðandi stað­setningu. Þannig er Kópa­vogur eitt fjöl­mennasta sveitar­fé­lag landsins.

„Ég tel að Kárs­nesið í Kópa­vogi sé til­valinn staður fyrir nýtt heimili há­skóla­náms í listum. Á Kárs­nesinu eru stórar lóðir sem nýtast vel í þetta hlut­verk og að­gengi að skólanum verður frá­bært með Borgar­línu og nýrri brú yfir Foss­voginn,“ segir Frið­rik sem endar grein sína á þessum orðum:

„Ég hvet bæjar­stjórn Kópa­vogs til að fylgja málinu eftir og skora á ríkis­valdið til að sjá út fyrir 101 & 102 og telja upp í 200….Kópa­vogur!“