Friðrik Ómar vill taka óbólusetta úr umferð: „Þetta fólk er sennilega að setja samfélagið á hliðina!“

Söngvarinn ástsæli Friðrik Ómar Hjörleifsson vill að þeir sem vilja ekki bólusetningu við Covid-19 eigi að halda sig heima. Smitum hefur fjölgað hratt í samfélaginu að undanförnu og óttast Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir að Landspítalinn geti ekki valdið álaginu. Alls eru 31 þúsund manns, 12 ára og eldri, óbólusettir hér á landi. Fyrir helgi voru 15 inniliggjandi, þar af 6 óbólusettir.

Friðrik Ómar fer hörðum orðum um óbólusetta á Facebook, tekur hann þó fram að hann sé ekki að tala um þá sem fá ekki sprautuna samkvæmt læknisráði. „Ekki fara á bari, veitingahús, tónleika, leikhús, verslanir o.fl.,“ segir hann beittur. „Við eigum að sýna vottorð hvert sem við komum. Vera með kóða í símanum og sýna fram á bólusetningu. Þannig verndum við þessa kjána og höldum vinnunni okkar.“

Friðrik er mikið niðri fyrir. „Er þetta eitthvað flókið? Þetta fólk er sennilega að setja samfélagið á hliðina! Þvílíkur skrípaleikur. Hluti af þeim er bera hræddur við sprautur.“

Netverji stakk upp á að merkja óbólusetta með merki eða strikamerki, þá sagði Friðrik: „Bara það sem virkar best.“