Freyr er læknir og segir Ís­lendingum að hysja upp um sig buxurnar

Freyr Rúnars­son heimilis­læknir skrifaði býsna at­hyglis­verðan pistil á Face­book-síðu sína í gær þar sem hann fjallar um stöðu mála vegna CO­VID-far­aldursins hér á landi.

Freyr er þeirrar skoðunar að Ís­lendingar þurfi að vakna og hysja upp um sig enda er honum annt um heilsu þjóðarinnar og skjól­stæðinga sinna. Freyr segir í pistlinum að sam­fé­lags­miðlar séu stút­fullar af myndum af fólki í þéttum hópum hér og þar, ská­landi og trallandi.

Hring­braut birtir pistil Freys hér að neðan enda á efni hans erindi til allra lands­manna:


„Ég velti því fyrir mér af­hverju ég þarf að tak­marka sam­skipti við vini mína, af­hverju ég hef á­kveðið að hætta kíkja út á lífið, fresta stór­af­mæli og barna­af­mæli og hætta við fermingar­veislu sonar míns eftir að hafa frestað henni einu sinni á meðan margir aðrir virðast ekkert spá í þessu, hittast í stórum hópi og knúsast og tralla eins og enginn sé morgun­dagurinn? Ráð­herra og ýmsir á­hrifa­valdar á sam­fé­lags­miðlum þar með taldir!

Svarið er ein­falt, það geisar drep­sótt í heiminum og mig sem per­sónu er annt um eigin heilsu, heilsu fjöl­skyldu og vina, annt um fjár­hag fjöl­skyldunnar og efna­hags­líf þjóðarinnar og ég skil til­mæli al­manna­varna. Mig sem lækni er annt um heilsu þjóðarinnar, skjól­stæðinga minna og bara jarðar­búa í heild ef út í það er farið. Mig sem mann­eskju er líka annt um alla þá í fram­línunni sem hafa látið lífið við það að reyna að forða okkur öllum frá þessum hörmungum. Myndin hér að neðan er til minnis um þá hjúkrunar­fræðinga sem CO­VID 19 hefur td tekið frá okkur til þessa bara í Banda­ríkjunum einum, það eru fleiri svona myndir til en mér finnst þessi dá­lítið sláandi.

Af­hverju er ég að skrifa þetta núna? Jú því ég tel að þjóðin þurfi að vakna upp og hysja upp um sig og votta þeim virðingu sína sem hafa dáið eða ör­kum­last í þessum fjanda til þessa. Við erum stödd í heims­far­aldri einnar skæðustu drep­sóttar sem maðurinn hefur séð í langan tíma, hún er að leggja efna­hag ríkja heims í rúst og er að ná svimandi háum dauða­tolli. Ný stað­fest til­felli síðasta sólar­hringinn í heiminum t.d. 21.813.235 (bara stað­fest til­felli). Látnir til þessa 772.624 (bara það sem er stað­fest).

Við Ís­lendingar kláruðum fyrstu bylgju þessarar sóttar með stæl og náðum að halda dauðs­föllum í lág­marki og heil­brigðis­kerfið hélt velli. Við stóðum okkur öll vel þá en það er bara ekki nóg, nú virðist allt annað uppá teningnum. Ég held að það sé sam­bland af þreytu, kæru­leysi og ein­hverri firringu sem nú veldur því að Ís­lendingar margir hverjir eru að kúka upp á bak. Eða er fólk kannski bara ekki nægi­lega upp­lýst um þá vá sem að okkur steðjar?

Drep­sóttin er hvergi nærri á niður­leið, hún hefur ekkert hægt á sér í Banda­ríkjunum, Brasilíu og víðar og hún er að taka sig upp aftur í löndunum í kringum okkur. Bylgja tvö eins og alltaf var búist við. Oft eru þessir toppar eða bylgjur jafn­vel þrjár í svona heims­far­öldrum. Við höfum í sumar mörg hver lifað í ein­hverri sápu­kúlu hér heima, talið að allt sé bara búið.

Á meðan heims­far­aldur geisar þá ættum við bara alls ekki að slaka á eins og við gerðum í sumar, knús og kossar, gleði og stórar sam­komur fengu í hugum okkar flestra grænt ljós frá Víði og co þegar slakað var á sótt­vörnum og fáir hlustuðu á sótt­varnar­lækni sem marg­oft talaði um breytta heims­mynd, að við þyrftum að læra að hegða okkur upp á nýtt og passa bara alltaf uppá að halda tveim metrum og forðast handa­bönd og faðm­lög og stór manna­mót, að minnsta kosti þar til bólu­efni verði komið á markað sem virkar og er öruggt.

En hvernig er staðan núna? Nú er bylgja tvö kominn af stað hér heima, reyndar voru á dögunum gerð að mínu mati þau mis­tök að tala um að við værum lík­lega að ná tökum á þessum smitum núna, ég er bara alls ekki sam­mála því. Að varpa svona út í kos­mósið eru bara skila­boð til þeirra sem þurfa enga af­sökun til að halda á­fram að vera kæru­lausir og virða til­mæli um tveggja metra regluna að vettugi. Við eigum td eftir að sjá hvað taum­laus gleðin á þétt­skipuðum skemmti­stöðum síðustu helgi og þessa helgi eiga eftir að skila okkur í smitum. Það gerist á næstu dögum, við vonum þó það besta. Mér finnst líka undar­legt jafn­vel dá­lítið barna­legt að halda að við séum að ná tökum á þessu þegar heimurinn er að drukkna í pestinni. Það er ekki að á­stæðu­lausu að al­manna­varnir ráða Ís­lendingum núna alveg frá ferða­lögum er­lendis.

Við munum ná tökum á þessum far­aldri en bara EF við högum okkur vel. Ég sé sam­fé­lags­miðla stút­fulla af myndum af fólki í þéttum hópum hér og þar, ská­landi og trallandi. Oft í nýjum hóp mörgum sinnum í viku. Ég sé myndir af á­hrifa­völdum kasta tveggja metra reglunni út um gluggann og jafn­vel ráð­herra sem virðist ekkert hafa miklar á­hyggjur af því að ferða­manna­iðnaðurinn sé í rúst hér heima. Skrifin í „kommenta­kerfum“ á frétta­miðlum bera þess merki að stór hluti fólks er bara alls ekki að skilja þau til­mæli sem þrí­eykið hefur sett fram. Því miður! Kannski komum við of vel út úr fyrstu bylgjunni að mati sumra, fólk hefur bara engar á­hyggjur?

Það vilja held ég allir að allt verði aftur eðli­legt hér, við erum öll orðin þreytt og viljum geta faðmað vini og ættingja og boðið í veislur. Við viljum öll halda vinnunni líka. Flest eigum við vini sem eru/munu missa vinnuna í þessum far­aldri, tón­listar­menn, fólkið í ferða­mála­geiranum, í flug­bransanum, veitinga­geiranum og svona mætti lengi telja. Sýnum þessu fólki og því fólki sem hefur fórnað lífi sínu í bar­áttunni við veiruna, þeim sem hafa misst ást­vini, þeim sem glíma við af­leiðingar veirunnar, og þeim okkar sem enn erum í skot­gröfunum að berjast, þá virðingu að hætta að knúsast og kjamsa og pósta því svo á veraldar­vefinn.

Af­sakið en ég er pínu kominn með nóg, við getum og munum sigra þessa veiru, gerum það núna en ekki á morgun og allir með ekki bara sumir!“

Ég velti því fyrir mér afhverju ég þarf að takmarka samskipti við vini mína, afhverju ég hef ákveðið að hætta kíkja út á...

Posted by Freyr Runarsson on Sunnudagur, 16. ágúst 2020