Framsókn og sjálfstæðismenn úti að aka næstu daga


Í komandi kjördæmaviku ætla þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að aka um landið og heimsækja kjósendur á ýmsum stöðum. Segja má að þessir flokkar verði þá úti að aka í orðsins fyllstu merkingu. Báðir flokkar hafa auglýst ferðir sínar um landið og boðað marga fundi.

Auðvitað má velta því fyrir sér hvers vegna þessir tveir framsóknarflokkar eru ekki saman í þessu verkefni. Ekki er neinn merkjanlegur munur á stefnu flokkanna í flestum stærri málum. Það ætti ekki að trufla. Flokkarnir hafa sömu skoðun á sjávarútvegsmálum og hafa lækkað veiðileyfagjöldin á kjörtímabilinu úr 15 milljörðum niður í 5 milljarða, þeir verja tugmilljarða landbúnaðarstyrki og þeir aðhyllast einangrunarstefnu þegar spurt er um afstöðu þeirra til utanríkismála.
Stefa núverandi ríkisstjórnar er að tryggja kyrrstöðu í landinu og sameiginlegt markmið flokkanna í vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur er að halda völdum fram á árið 2021 - hvað sem það kostar. Breytir engu þó flokkarnir séu rúnir trausti kjósenda eins og fram kemur í öllum skoðanakönnunum allt frá hausti árið 2018.

Sjálfstæðisflokkurinn mætir til þessara funda með gamalt mál sem nú er stillt upp sem nýju: Við ætlum að selja Íslandsbanka þannig að unnt verði að ráðast í vegabætur án þess að innheimta vegatolla. Þá ættu allir að geta glaðst og tekið þingmönnum flokksins vel þegar þeir birtast eftir að hafa verið úti að aka.

Rætt hefur verið um að selja hluti í ríkisbönkunum árum saman. Bjarni Benediktsson hefur verið ráðherra samfleytt frá vorinu 2013 og lengst af haft með þessi mál að gera án þess að hafa selt eitt einasta hlutabréf í Landsbankanum eða Íslandsbanka. Verð á bönkum hefur farið lækkandi á Vesturlöndum á þessum árum. Viturlegra hefði verið að hefja sölu bankanna fyrir nokkrum árum á meðan virði þeirra var talsvert meira. Nú er ekki hægt að vænta þess að fá hátt verð fyrir bankana og þá er ætlunin að hefja söluferli. Ekki ber þetta vott um mikil hyggindi eða góða stjórn á fjármálum ríkisins.

Þó hugmyndum um sölu á hlutabréfum í Íslandsbanka sé nú slegið fram til að róa þá sem hræðast vegatolla, þá er ekki þar með sagt að sala gangi eftir. Það nægir ekki að fyrir hendi sé vilji til að selja. Það þarf einhver að vilja kaupa!
Fjárfestar eru tregir til að fjárfesta í bönkum eins og staðan er núna. Ekki síst ef um er að ræða minni hluta hlutafjár í banka sem ríkið á meirihluta í. Það þykir hvergi spennandi kostur.

En sala hlutabréfanna er trúlega ekki stóra málið heldur hitt að þingmenn flokksins geta talað um þetta í ferðinni og reynt að róa kjósendur með því að þeir losni við að greiða vegatolla í framtíðinni þó niðurstaðan verði svo allt önnur þegar til kastanna kemur. En þá verður komið nýtt kjörtímabil og allt annað fólk við stjórnvölinn.