Framsókn inni í öllum stjórnarmynstrum samkvæmt könnun MMR

Þrenn stjórnarmynstur gætu komið til álita ef niðurstaða kosninga eftir sjö mánuði yrði í samræmi við nýja skoðanakönnun MMR.

En fleira er eftirtektarvert í könnuninni.

Til dæmis það að Samfylkingin missir flugið eftir að flokkurinn birti framboðslista sína í Reykjavík um síðustu helgi. Hreinsanir og viðtaka pólitískra flóttamanna virðist ekki mælast vel fyrir. Flokkurinn fengi níu þingmenn nú en hefur verið að mælast með tólf þingmenn í flestum könnunum að undanförnu. Þannig gæti farið svo að Samfylkingin næði bara einum þingmanni í hvoru Reykjavíkurkjördæmanna en þremur í Kraganum. Það yrði mikið áfall. Fylgi flokksins hefur nú færst yfir á Vinstri græna.

Hvorki Sósíalistaflokkur Gunnars Smára né Flokkur fólksins kæmu fulltrúum á þing.

Sjálfstæðisflokkurinn tapar enn fylgi, fengi 22,2 prósenta fylgi og fimmtán menn kjörna og tapaði einum þingmanni frá síðustu kosningum.

Að nafninu til gætu stjórnarflokkarnir haldið áfram núverandi vinstri stjórn - einungis með 32 þingmenn á bak við sig. Ólíklegt er að mynduð verði svo veik stjórn.

Þá væri unnt að mynda hreina vinstri stjórn Samfylkingar með níu þingmenn eins og Vinstri græn, auk Pírata og Framsóknar með átta þingmenn hvor flokkur. Alls yrðu 34 þingmenn á bak við stjórnina.

Einnig væri unnt að mynda hreina miðjustjórn þar sem Viðreisn kæmi inn með átta þingmenn í stað Vinstri grænna. Sú stjórn nyti stuðnings 33 þingmanna.

Framsókn yrði með í öllum þessum þremur stjórnarmynstrum.

Logi Einarsson yrði trúlega forsætisráðherra miðjustjórnarinnar.