Fössari – orðið sem sameinaði þjóðina

Í dag er fössari. Það er gott.

Við munum þá tíð þegar einn góður Íslendingur fékk hugmynd og öll þjóðin sameinaðist á svipstundu á bak við hugmyndina. Saman sigldum við á grunni hugmyndarinnar í eina átt. Niðurstaðan leiddi oft á tíðum til mikils árangurs. Oft var afrekið rammað inn með fyrirsögnum blaðanna um að við værum frábær og einstæð þegar við tækjum okkur saman.

Það mætti nefna mýmörg dæmi um mátt samstöðunnar. Það sem af tilviljun kemur upp í hugann eru góð mál, átök sem ætlað var að vinna gegn misrétti. Þannig var sem dæmi óendanlega skemmtilegt að vera Íslendingur þegar allir frægustu tónlistarmenn landsins sungu Hjálpum þeim þar sem barist var gegn hungri í fátæku ríki.

Þá hefur þótt saga til næsta bæjar í náttúruhamförum ýmiss konar, hvað hver og einn hefur með fórnfýsi sem áður var talin sjálfsögð lagt lið. Björgunarsveitir landsins eiga þar ríkan þátt. Björgunarstarf er eitt fegursta birtingarform óeigingjarnrar vinnu og sannarlega sjaldgæft á heimsvísu.

Samúð og samkennd einkenndi lengst af hina fremur einsleitu en samstæðu íslensku þjóð. Þá var oft gaman að lifa þótt hóphyggjan og skortur á gagnrýninni hugsun, tengt spillingu og þrýstingi frá valdakerfum, leiddi að lokum til þess að hér fór allt á hausinn í jafnt siðferðislegu sem veraldlegu alhruni. Fullkominn trúnaðarbrestur varð milli þjóðar og þings og eru margir enn að bíta úr nálinni eftir það sjokk. Þá hvarf sakleysi Íslands. Þá hurfu ýmsar mýtur og margir fyrrum fagrir draumar niður í skolpræsin.

Síðan höfum við leitað samstöðunnar á ný. Sú leit hefur ekki gengið vel en stundum örlar á einhverju sem minnir mann á gamla og góða samstöðutíma. Þegar Rúv stóð fyrir orði ársins um daginn og landsmenn sameinuðust um að fössari, sem merkir föstudagur, væri orð ársins, mátti sjá fésbókarsíður landans fyllast af jákvæðum ummælum um þetta orð sem fullorðnum finnst svo barnslega spennandi. Ungmenni munu þó hafa notað það um langt skeið og finnst orðið úrelt ef eitthvað. Unga kynslóðin er alltaf á undan tíma okkar hinna.

En Það skiptir ekki máli í samhenginu, það sem skiptir máli er barnsleg gleði þjóðar sem sameinaðist um eitt orð sem hinum fullorðnu fannst flott. Orðið fössari og hvernig þjóðin hefur sameinast um að það sé skemmtilegt orð minnir á að við getum þetta enn, getum sammælst um eitthvað. Gildir þá einu hvort sigrarnir eru smáir eða stórir.

Enn bíður mikið verk, að sameina íslenska þjóð og sefa niður reiði. Kannski verður það ekki gert nema breyta áherslum við efnahagsstjórn. En ef við gætum aftur upplifað þá gleði sem fylgir því að vera í einum samstæðum hópi yrði það eflaust til bóta. Gagnrýnin hugsun og þjóðarsamstaða ættu að geta átt samleið. Án þjóðhverfu, án heilaþvottar forsætisráðherra um endalaus heimsmet. Við ættum að geta náð takti saman án linnulausra gífuryrða um hve einstæð við erum. Við erum ekkert merkilegri en annað fólk. En við erum ágæt og það væri gott að finna þjóðartaktinn á ný.

Kannski er fössari upphaf að nýjum sigrum. Og kannski mætti nefna stærra mál, albönsku fjölskyldurnar tvær sem fengu að snúa aftur.

Við bíðum, við vonum. Bjartsýni er góð og einkennir einmitt fössarana...

(Þessi pistill Björns Þorlákssonar birtist fyrst í Kvikunni á Hringbraut.