For­varnar­full­trúi með mikil­væg skila­boð til for­eldra um hvernig menn tæla börn – svona hefjast sam­skiptin

Alfa Jóhanns­dóttir, for­varnar­full­trúi Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga, skrifar heldur betur á­huga­verða grein á Vísi í dag um of­beldi og börn.

Alfa spyr þar for­eldra: „Hvað myndirðu gera ef barnið þitt kæmi með sýni­lega á­verka?“

„Sem betur fer reyna lang­flestir for­eldrar allt sem þau geta til að vernda og verja börnin sín fyrir því sem veldur þeim skaða. Börnum af minni kyn­slóð var til dæmis kennt að varast ó­kunnuga á götum úti, fara aldrei upp í bíl með ó­kunnugum og svo auð­vitað var stúlkum kennt að passa sig og setja sig ekki í að­stæður sem gætu leitt af sér of­beldi. Það heppnaðist ekki alltaf, en það voru verk­færin sem for­eldrar okkar höfðu. Ó­þokkar í myrkum húsa­sundum voru ó­öryggið og óttinn sem bar að varast,“ skrifar Alfa.

„Staf­ræn um­breyting hefur breytt þessu um­hverfi al­gjör­lega og ó­öryggið sem við fundum fyrir gagn­vart ó­kunnugum í skuggunum er orðið á­kveðið öryggi því þar eru skuggarnir sem við sjáum. Skuggar staf­ræna um­hverfisins eru því miður oft á tíðum ó­sýni­legir okkur, hafa þann mögu­leika að dul­búa sig sem hver og hvað sem er og skapa þannig hættu fyrir börnin okkar sem við höfum ekki enn verk­færin til að takast á við.“

„Eftir því sem netið breiðist meira út og angar þess teygja sig inn í fleiri þætti lífs okkar byrja fleiri börn, og sí­fellt yngri börn, að alast upp í staf­rænum heimi. Börn eyða meiri tíma á netinu en nokkru sinni fyrr. Að alast upp á netinu býður upp á enda­laus tæki­færi og í gegnum tölvur, sjón­vörp og önnur snjall­tæki opnast stór og mikill heimur upp­lýsinga fyrir börn, sem getur eflt þau og styrkt þau í þeirra verk­efnum,“ skrifar Alfa.

Hún segir að þegar netið er notað á réttan hátt hefur það mögu­leika á að víkka sjón­deildar­hring, víð­sýni og þekkingu okkar. En öllum þessum tæki­færum fylgir líka á­hætta.

„Eftir því sem staf­ræn reynsla barna eykst og staf­rænt um­hverfi þeirra stækkar, fjölgar einnig ógnunum og hættunum sem fylgja og geta falið í sér of­beldi og á­reitni á­samt því að börn verða út­settari fyrir skað­legu efni. Ein stærsta ógnin við börn á netinu er hins­vegar staf­rænt of­beldi og brot á kyn­ferðis­legri frið­helgi þeirra.“

„Af­því að staf­rænt of­beldi er ekki alltaf sýni­legt, bera þol­endur þess ekki alltaf sýni­lega á­verka. Við þekkjum ekki til­urð, birtingar­myndir og af­leiðingar þess og eigum þess vegna oft erfitt með að bregðast við því eða koma í veg fyrir það. Oft á tíðum átta börnin sig ekki á því að verið sé að brjóta á þeim og þess vegna er svo mikil­vægt að við kennum þeim og lærum sjálf.“

„Börn sem þekkja réttindi sín og vita þegar brotið er á þeim láta frekar vita og ef við sjálf erum upp­lýst getum við betur varið þau og brugðist við. Það hefur aldrei verið auð­veldara fyrir kyn­ferðis­af­brota­menn að nálgast hugsan­lega þol­endur sína. Í hinum staf­ræna heimi getur hver sem er, hvaðan sem er búið til að­gang til að nálgast börn í gegnum sam­fé­lags­miðla og/eða leikja­tölvur. Það hefur einnig auð­veldað þeim að tæla börn til sam­skipta,“ skrifar Alfa.

„Tæling er þegar full­orðinn ein­stak­lingur reynir að byggja upp sam­band við barn svo að hann geti beitt það of­beldi. Of­beldið er ekki alltaf líkam­legt, það getur átt sér stað í staf­rænum sam­skiptum við barnið. Þau sem beita tælingu reyna þá oft að mynda tengsl við barnið á sam­fé­lags­miðlum, spjalla jafn­vel við barnið í gegnum tölvu­leiki sem eru spilaðir á netinu eða nota hvern þann vett­vang sem er ætlaður fyrir sam­skipti á netinu. Mörg nota ekki sitt raun­veru­lega nafn eða eigin mynd og þykjast jafn­vel sjálf vera börn. Önnur nota eigin upp­lýsingar, og þá sér­stak­lega ef þau eru sjálf ung.“

„Sam­skiptin hefjast oft á því að þau sem beita tælingu látast hafa sömu á­huga­mál og barnið og þykjast jafn­vel þekkja sömu ein­stak­lingana. Þetta eru oft upp­lýsingar sem börnin hafa gefið sjálf upp án þess að átta sig á því, hvort sem það er í gegnum sam­fé­lags­miðla eða leiki. Yfir­leitt þróast svona sam­skipti fljótt yfir í einka­sam­töl þar sem sá sem beitir tælingunni reynir að hefja kyn­ferðis­legt sam­tal, og óska eftir til dæmis nektar­myndum,“ skrifar Alfa.

Hægt er að lesa grein Ölfu í heild sinni hér.