Forstjóri Vodafone: Betra að bora eftir olíu á Íslandi en í Afríku þar sem spillingin er „alltumlykjandi“

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Vodafone og Stöðvar 2, segir útspil Evrópusambandsins í orkumálum sem kynnt var í síðustu viku á Hringborði Norðurslóða í Hörpu vera stórlega vanhugsaða. Þar er lagt til að hætt verði að leita að olíu og gasi á Norðurslóðum.

„Ekki nóg með að hætt verði við frekari leit eftir olíu og gasi heldur mun kaupum frá núverandi framleiðslu hætt. Þarna er alveg horft fram hjá því að ekkert svæði í heiminum hefur jafn góða sögu að segja um ábyrga nýtingu auðlinda síðustu árhundruð og góða umgengni við náttúruna og Norðurslóðir,“ segir Heiðar í grein sem hann skrifar á Vísi.

„Ákvörðun ESB ýtir í raun framleiðslunni bara til verri staða, eins og gerðist í kringum sólar og vindorkutilburði sambandsins. Þeim finnst eðlilegra að halda uppbyggingu áfram í Afríku og Asíu þar sem mengun vegna vinnslunnar er margföld, spillingin alltumlykjandi, og eftirköstin eftir því. Það er ekkert vit í þessu.“

Hann segir þá sem vilji ekki leita að olíu vera einfalda og gera það í nafni trúarofstækis: „Ég vona innilega að Ísland mótmæli kröftuglega og fjalli á hreinskiptinn hátt um það efnahagslega harakiri sem ESB boðar. Norðurslóðastefna ESB er engum til góðs. Ekki einu sinni ESB.“