For­eldrar ó­sáttir: Þetta fengu börnin að borða í dag – Skóla­matur biðst af­sökunar

For­eldrar barna sem kaupa mat af Skóla­mat eru margir hverjir ó­sáttir við matinn sem börnunum var boðið upp á í há­deginu. Hafa for­eldrar birt myndir af mál­tíðum barna sinna og gagn­rýnt harð­lega. Skólamatur hefur brugðist við gagnrýninni með yfirlýsingu þar sem beðist er afsökunar.

„Þetta er ekki boð­legt. Það verður enginn saddur af þessu,“ segir í einni færslu en á myndinni má sjá fjórar kjöt­bollur og ekkert með­læti. Á annarri mynd sem hefur verið dreift má sjá mál­tíð með þremur kjöt­bollum og þremur kar­töflum, engri sósu eða öðru með­læti. Fleiri sam­bæri­legar myndir hafa sést.

„Þó það sé Co­vid er samt ekki í lagi að leggja að­eins meiri metnað í matinn hjá krökkunum?“ segir í enn annarri færslunni.

For­svars­menn Skóla­matar hafa beðist af­sökunar á málinu og birtist yfir­lýsing þess efnis á Face­book-síðu fyrir­tækisins eftir há­degið. Í henni biðst fyrir­tækið af­sökunar og er málið út­skýrt þannig að tak­mörkun sam­komu­banns hafi gríðar­leg á­hrif á starf­semi Skóla­matar sem gerir það að verkum að breyta þarf öllu verk­lagi til að upp­fylla kröfur.

„Í stuttu máli var þessi mál­tíð engan vegin í sam­ræmi við þær kröfur sem þið gerið til Skóla­matar og okkur þykir það miður. Við skiljum vel ó­á­nægju ykkar og þökkum að sama skapi fyrir þann skilning sem okkur hefur verið sýndur,“ segir í yfir­lýsingunni sem lesa má í heild hér að neðan.

Kæru vinir.

Eftir þennan fyrsta dag í skertu skóla­haldi viljum við hjá Skóla­mat biðjast af­sökunar.

Tak­mörkunin hefur gríðar­leg á­hrif á alla starf­semi Skóla­matar og breyta þarf verk­lagi frá A-Ö til þess að upp­fylla allar kröfur yfir­valda. Eftir tak­mörkun á skóla­haldi fyrr í vor töldum við okkur vera vel í stakk búin til þess að takast á við þessar breytingar. En því miður kom í ljós í dag að við vorum ein­fald­lega ekki nægi­lega vel undir­búin.

Maturinn sem skammtaður var í ein­nota box var í ein­hverjum til­fellum ekki nægi­lega mikill og auk þess gleymdist að gera ráð fyrir sósu með matnum á sumum stöðum. Í stuttu máli var þessi mál­tíð engan vegin í sam­ræmi við þær kröfur sem þið gerið til Skóla­matar og okkur þykir það miður.

Við skiljum vel ó­á­nægju ykkar og þökkum að sama skapi fyrir þann skilning sem okkur hefur verið sýndur.

Starfs­fólk Skóla­matar er að vinna að því að finna lausnir á öllu því sem fór úr­skeiðis í dag. Að mörgu er að hyggja en við munum gera okkar allra besta til þess að geta á­fram boðið nem­endum upp á hollan og fjöl­breyttan mat þrátt fyrir þessar tak­markanir.

Með kærri kveðju

Starfs­fólk Skóla­matar

Kæru vinir. Eftir þennan fyrsta dag í skertu skólahaldi viljum við hjá Skólamat biðjast afsökunar. Takmörkunin hefur...

Posted by Skólamatur on Þriðjudagur, 3. nóvember 2020