Fjölskyldan töfrar fram líbanska matarveislu af beztu gerð

Fjölskyldan töfrar fram líbanska matarveislu að beztu gerð

Það er ekkert eins gefandi eins og að koma inn á heimili þar sem öll fjölskyldan er saman komin í eldhúsinu að undirbúa matarveislu af ástríðu og natni. Í kvöld heimsækir Sjöfn Þórðar, Soffíu Karlsdóttur, Gunnar J. Árnason og dæturnar Sunnefu og Júlíu á fallegt heimili þeirra í Grafavogi í þættinum Matur og Heimili og fær að fylgjast með fjölskyldunni við matargerð á líbönskum sælkeraréttum þar sem matarástin er í forgrunni og allir njóta sín saman.

M&H Matarveisla undirbúin - Eldhúsið 6.apríl 2021.jpg

Líbanska matarveislan í fullum undirbúningi og lítríkt hráefni gleður augað.

Áhugafólk um matargerð og borða góðan mat saman

Heimili fjölskyldunnar er einstaklega fallegt , á besta útsýnisstað í Grafavoginum og lýsir vel þeim sem þar búa. Hönnunin á eldhúsinu er vel heppnuð og vinnuaðstaðan til fyrirmyndar. Stór eyja í opnu rými hússins kallar á skemmtilegt og skapandi samstarf við matarundirbúninginn og það nýtir fjölskyldan sér út í ystu æsar. „Við erum mikið áhugafólk um matargerð og að skipuleggja, undirbúa og borða góðan mat saman er eitt af því sem tengir okkur vel saman. Gunnar er aðalmatgæðingur heimilisins og óragur við að prófa nýja, framandi rétti sem annað heimilisfólk nýtur góðs af,“ segir Soffía og stolt af sínum manni.

M&H Matarveisla 6.apríl 2021 feðginin Gunnar & Sunnefa.jpg

Feðginin, Gunnar J. Árnason og Sunnefa Gunnarsdóttir eru samheldin í eldhúsinu.

Einstök krydd sem einkenna bragð réttanna

Fjölskyldan hefur gaman af að ferðast til framandi staða og kynnast ólíkri matargerðarlist og á heimilinu er mikið rætt um mat og nýja upplifun af matargerð. Nýjasta ástríða þeirra er líbönsk matargerðarlist þar sem kryddin og brögðin eru búin að töfra þau upp úr skónum. „Fyrir utan hin einstöku krydd Za‘atar, Sumac, Ras el hanout og Berbere, sem einkennir bragð réttanna, þá eru í líbönskum mat notuð fersk hráefni og mikið grænmeti sem hentar vel þar sem dætur okkar Sunnefa og Júlía eru báðar vegan,“ segja hjónin Gunnar og Soffía og vita fátt skemmtilegra en að prófa sig áfram í líbanskri matargerð með dætrunum.

Missið ekki af lifandi og skemmtilegri heimsókn í eldhúsið til fjölskyldunnar í kvöld í þættinum Matur og Heimili á Hringbraut klukkan 20.00.