Hringbraut skrifar

Ferðalag í fárviðri hugans

14. janúar 2020
10:58
Fréttir & pistlar

Veðurfar er hugarfar hef ég oft sagt. Oftast er það nú í léttu gríni enda er ég alinn upp í bæ sem suðaustan og suðvestan lægðir kalla heimabæ.

Ég hef síðustu tvö ár sirka, verið í miklu persónulegu ferðalagi í gegnum sjálfan mig. Á þessu ferðalagi hafa svo sannarlega skipst á skyn og skúrir og á tímum hef ég þurft að taka slaginn við haustlægðir í mínu eigin höfði til þess eins að sjá hlutina í skýrara samhengi.
Mér finnst í dag eins og þessi vinna sé að raða öllum þeim brotum sem greinilega voru til staðar, á réttan stað.

Haustið 2018 hætti ég á góðum vinnustað til þess að sækjast í meiri áskorun á sjálfan mig. Ég hafði verið að vinna á góðum stað en samt sem áður á stað sem ég í raun þekkti of vel.
Ég tók ákvörðun á að þrýsta mér úr boxinu á allan mögulegan hátt.
Ég endaði á því að fá frábæra vinnu þar sem ég var umvafinn góðu fólki.
Á sama tíma ákvað ég að sækja um nám í Noregi sem ég fékk inngöngu í.

Þetta er formálinn af því ferðalagi sem ég lagði af stað í haustið 2018.

Það sem ég í raun gerði mér ekki grein fyrir var, að ég var um það bil að opna Pandorubox tilfinninga minna.

 

Fljótlega eftir að ég er byrjaður í vinnu og námi lendi ég í því, á leið minni á Akureyri, að keyra inn í snjóflóð í Hvalnesskriðum. Ég fer í það ásamt öllu því fólki sem kom að, að reyna að losa bílinn úr flóðinu þegar annað flóð fellur rétt hjá. Þá átta ég mig á þeirri miklu hættu sem ég var í, því það eru þrjátíu metrar þverhnípt niður í stórgrýtta fjöruna.

Þegar ég svo kom norður á Akureyri veiktist ég. Líklegt er að ég hafi orðið fyrir einhverju áfalli eftir snjóflóðið því upp úr þessum veikindum fer ég í það að geta ekki sofið.

Á þriðja sólarhring gat ég ekki sofið sem endar með því að ég fæ harkalegt kvíðakast. Ég skildi ekkert hvað var að gerast enda hef ég aldrei upplifað svona áður. Ég átti bókstaflega erfitt með andardrátt svo slæmt var kastið.

Öll vandamál heimsins hlóðust upp á sama tíma og ég réði ekki við það.

Ég er alkóhólisti og þekki það því vel hvað það er mikilvægt að leita hjálpar þegar öll sund virðast lokuð. Sú reynsla sem ég bjó að úr þeirri vinnu reyndist mér afar vel á þessum tímapunkti.

Þessir atburðir leiddu mig í það að fara til sálfræðings og byrja vinnu sem breytti mér.
Í þeirri vinnu greinist ég með ADD sem er athyglisröskun. (ADHD nema ekki ofvirkur).
Hluta af mínum vandamálum í gegnum lífið má vel rekja til þess a ég hafi farið í gegnum skóla án þess að fá þá hjálp sem einstaklingar með ADD þurfa.

Þarna fékk ég svo mörg svör við ósvöruðum spurningum sem hafa hangið yfir mér alla tíð.
Greiningin gerði það að verkum að ég fór að vera svo meðvitaður um sjálfan mig og þá „galla“ sem fylgja ADD. Ég fór að læra á kosti ADD og njóta þeirra.

Þegar þarna var komið við sögu er að byrja mikill álagstími í vinnu og námi.
Vinnan mín er að mörgu leiti....eða öllu leiti ólík öðrum vinnum. Þannig er að ég er háður árangri. Enginn árangur og þá hangir vinnan á bláþræði. Svo má alltaf deila um hvað árangur er. Í mínum huga er það innra starf og sú rækt sem lögð er í þá vinnu, árangur. Ofan á það þarf að koma uppskera og þá eru allir sáttir.

Annað sem gerir mína vinnu ólíka öðrum er að það er fólk bókstaflega í vinnu við það að gagnrýna mig og þá sem eru í minni stöðu. Ef ég geri mistök þá eru þúsundir manna sem lesa um það og hafa álit á því. Jafnvel þrýsta sérfróðir menn og þeirra föruneyti eftir því að ég verði rekinn og missi þar með lifibrauð mitt og fjölskyldu minnar. Því verr sem okkur gengur því dýpri verða stungurnar.
Ég er nokkuð viss um að það séu ekki mörg störf sem bjóða upp á þetta.
Í skóla væri þetta jafnvel flokkað sem einelti, orð sem ég kannast aðeins of vel við.

Ástríða mín og áhugi nær samt yfir þetta.
Ég tek þessu eins aðrir í minni stöðu, þó að ég finni vel fyrir stungunum.

Eftir að ég byrjaði ferðalagið í gegnum sjálfan mig hef ég lært að þetta áreiti skiptir mig ekki eins miklu máli.
Þeir þættir sem ég leit á sem „veikleika“ eru í dag mínir helstu styrkleikar.

Ég kláraði í gær nám mitt í Noregi, nám sem reyndi á mig á allan hátt á sama tíma og ég var að keyra í gegnum óveðrið í sjálfum mér.
Að útskrifast í gær er ekki bara útskrift úr skóla fyrir mig, heldur útskrift úr áralöngum efasemdum og óöryggi sem hafa svo leitt mig í ógöngur.
Útskrift frá þeim þungu hlekkjum að þurfa alltaf að sanna sig fyrir einhverjum öðrum.

Í dag fagna ég því að hafa farið í gegnum storminn því hann mótaði einstakling sem er tilbúinn, með áframhaldandi vinnu, að vaða í stærstu fjöllin og dýpstu dalina.

Óli Stefán Flóventsson