Felix stýrir Euro­vision á næsta ári

Felix Bergs­son mun taka á­kvarðanir um Euro­vision á næsta ári. Hann er kominn í stýri­hóp keppninnar sem tekur allar helstu á­kvarðanir um keppnina og tryggir að skiptin frá Hollandi til Ítalíu gangi klakk­laust fyrir sig. Felix tekur sæti í hópnum í tvö ár, að því er fram kemur í Frétta­blaðinu í dag.

Hópurinn hittist í fyrsta sinn í Genf í vikunni og sagði Simona Mar­tor­elli, farar­stjóri ítalska hópsins og með­limur í stýri­hópnum, í sam­tali við heima­síðu Euro­vision, að eftir­væntingin væri mikil fyrir komu keppninnar. Fyrsta verk er að finna borg á Ítalíu til að halda keppnina.

Felix fór í ör­litla kosninga­bar­áttu fyrir kjörið en þrír farar­stjórar eru kosnir í hópinn og er kjör­tíma­bilið tvö ár. Felix hefur undan­farin ár verið farar­stjóri ís­lenska hópsins og er þakk­látur stuðningi RÚV.

„Það er gaman að vera með í því að þróa keppnina á­fram næstu tvö árin hið minnsta og það er ýmis­legt á bak við tjöldin og í skipu­lagi þar sem þarf að taka til hendinni. Mér finnst gaman að koma að þessu enda er bjart yfir Euro­vision.Ég held að allir séu sam­mála um að síðasta keppni í Rotter­dam hafi verið frá­bær. Sam­fé­lags­miðla­notkunin var nánast gígantísk og það er greini­legt að lista­menn eins og Daði og í Mána­skin höfðuðu til unga fólksins, 16–23 ára,“ hefur Frétta­blaðið eftir Felix.

Hann vill hins­vegar ekkert gefa upp um það hvaða hug­myndir hann er með sem geta gert keppnina betri. „Það kemur í ljós en fyrst og fremst er þetta sam­starfs­verk­efni milli allra í hópnum. Það er gaman að sitja við borðið og koma að þessu. Allar breytingar sem á að gera koma inn á okkar borð og þær eru ræddar og svo á­kvörðun tekin.

Nú er verk­efnið að styðja Ítalíu til að halda flotta keppni. Þeir eru með fjár­magnið en þeir þurfa stuðning til að halda flotta keppni. Það þarf að tryggja að fólk fari ekki af sporinu,“ segir Felix.