Fálkaleg afgreiðsla á fálkaorðunni

Enn á ný gýs upp ágreiningur um val á þeim sem forseti landsins veitir Fálkaorðuna svonefndu.

Hér verður ekki rætt um aðra en Sigurð Hannesson sem sýnd var þessi sæmd á nýjársdag. Þá tók umdeild pólitík völdin og varpaði skugga á embætti forseta og vægi þessarar orðuveitingar.

Að þessu sinni voru meðal annars heiðraðir forstjóri stærsta og verðmætasta fyrirtækis landsins, skáld og hljómsveitarstjóri ásamt svo mörgum öðrum sem flestir eru opinberir starfsmenn sem hafa staðið sig vel í að sinna störfum sínum eins og þorri landsmanna á vinnumarkaði. Til viðbótar við þetta er svo Sigurður Hannesson. Rökin fyrir vali á Sigurði eru þessi: „...fyrir atbeina undir merkjum samtakanna Indefence og framlag til íslensks atvinnulífs.“

Hver er Sigurður Hannesson sem að mati orðunefndar verðskuldar heiðursmerki? Hann er stærðfræðingur með doktorsgráðu frá Englandi. Hann starfaði hjá MP banka, sóttist þar eftir forstjórastöðu en var hafnað. Nokkru síðar var hann ráðinn í starf framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins. Það þótti sæta tíðindum í ljósi þess að samtökin hafa verið alþjóðlega sinnuð en Sigurður er stækur andstæðingur Evrópusamstarfs. Í fyrra sótti hann um stöðu bankastjóra Seðlabanka Íslands en þótti ekki heppilegur. Vitað er að þetta skref hans var ekki vel liðið innan Samtaka iðnaðarins  sem ættu ekki að þurfa að sætta sig við að framkvæmdastjóri þeirra sé að leita sér að störfum á vinnumarkaði. Stjórn samtakanna hlýtur að meta stöðu Sigurðar eftir þetta.

Þá bregður svo við að hann er heiðraður með svonefndri Fálkaorðu. Varla er það fyrir störf í íslenskum iðnaði. Þá hefði formaður SI fyrr verið nefnd til, Guðrún Hafsteinsdóttir, skeleggur forystumaður í íslensku atvinnulífi og lífeyrissjóðum. Nei, verið var að heiðra Sigurð fyrir „atbeina undir merkjum samtakanna Indefence“. Og svo er bætt við „framlag til íslensks atvinnulífs“.

Einmitt. Hvert er „framlag“ Sigurðar Hannessonar til íslensks atvinnulífs?  Hefur hann rekið íslenskt fyrirtæki? Hefur hann stofnað eða þróað íslenskt fyrirtæki? Hefur hann fjárfest í íslensku fyrirtæki? Er hann hluthafi, fjárfestir, í íslensku fyrirtæki? Sennilega ekki. Er þá framlag Sigurðar það að þiggja laun hjá íslenskum iðnaði? Fær maður Fálkaorðu fyrir það?

Forysta Samtaka iðnaðarins ætti nú að hugsa sinn gang varðandi þennan starfsmann þegar verið er að hefja hann upp til einkennilera metorða með því að veita honum viðurkenningu fyrir tíu ára gamalt mjög umdeilt upphlaup sem engu máli skipti en hefur þýðingu fyrir fámennan hóp öfgamanna í pólitískir píslargöngu. Félagar innan Samtaka iðnaðarins hljóta að spyrja stjórnina um afstöðu til þessa vandræðalega máls.

Svo má velta fyrir sér hvernig staðið er að orðuveitingum á Íslandi. Svokölluð Orðunefnd kemur með tillögur um orðuhafa til forsetans. Hana skipa Guðni Ágústsson fyrrum ráðherra landbúnaðarmála og framsóknarmaður, Ellert Schram frá Samfylkingu (síðast þegar vitað var), Guðrún Nordal frá Sjálfstæðisflokki, Jón Egill Egilsson fv. sendiherra og Svanfríður Jónasdóttir nú frá Samfylkingu (áður Alþýðubandalagi).

Pólitísk nefnd eldri borgara. Spyrja má hvort þetta fólk er í góðum tengslum við tíðarandann og þjóðinna þó margir nefndarmanna hafi verið það fyrir nokkrum áratugum. En ekki lengur eins og greina má á vali nefndarinnar að þessu sinni. Og reyndar oft áður.

Hvernig væri að skipta Orðunefndinni allri út?

Hvernig væri að hætta með þessar hallærislegu oðuveitingar og allt þetta bjánalega prjál?