Eyþór segir hlutinn í Mogganum til sölu: „Ég er ekki með neinar beinagrindur í skápnum“

Tónlistarmaðurinn og pólitíkusinn Eyþór Arnalds er í viðtali í helgarblaði Fréttablaðsins. Auk þess að vera oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn hefur hann einnig látið að sér kveða á viðskiptasviðinu og hefur hlutur hans í Morgunblaðinu verið milli tannanna á fólki en lengi vel var Eyþór stærsti hluthafinn.

Í viðtalinu ræðir hann meðal annars þann hlut sem hann keypti af Samherja fyrir fjórum árum síðan.

„Hlutur minn í Mogganum hefur rýrnað á hverju ári, því miður. Ég átti þennan hlut áður en ég fór í borgarpólitíkina en um leið og ég fór þangað sagði ég mig úr stjórn Árvakurs og hef engin afskipti þar. Hlutur minn hefur verið til sölu en það er lítil eftirspurn enda afkoman neikvæð. Aðalatriðið er að þegar fólk er með hagsmuni sé það uppi á borði. Þessi hlutur er verst geymda leyndarmálið í íslenskri pólitík enda margskráður,“ segir Eyþór.

„Ég er ekki með neinar beinagrindur í skápnum. Ég keypti hlutabréf í Árvakri af Samherja fyrir fjórum árum síðan. Ég skulda þeim ekki neitt og þeir mér ekkert heldur. Hlutabréfin hafa orðið verðlítil eins og í öðrum frjálsum fjölmiðlum og því eðlilegt að hlutabréfin séu færð niður þegar taprekstur er ár eftir ár.“