Eru þetta tillögur Sjálfstæðisflokksins?

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson fyrrverandi borgarstjóri skrifar grein í Morgunblaðið í dag og hefur miklar áhyggjur af þróun mála hjá Reykjavíkurborg, og þá ekki síst því að borgarfulltrúar skuli vera 23 en ekki 15. Telur Vilhjálmur stjórnsýslu borgarinnar hafa stórversnað á þeim þremur árum sem liðin eru frá því að borgarfulltrúum var fjölgað. Nauðsynlegt hafi verið að fjölga nefndum og ráðum til að finna öllum fulltrúunum verkefni og einstaklingar og fyrirtæki sem erindi eigi við borgaryfirvöld, nefndir og ráð, finni vel fyrir þessu. Engin rök hafi verið fyrir fjölguninni en mikil fyrir því að fækka á ný.
Árið 1930 stóð Sjálfstæðisflokkurinn að því að fjölga borgarfulltrúum í 15. Þá bjuggu 28 þúsund manns í borginni og því tæplega 1900 íbúar um hvern fulltrúa í borgarstjórninni. Í dag eru íbúar höfuðborgarinnar 133 þúsund. Borgarfulltrúar þyrftu að vera 71 til að ná því hlutfalli sem sjálfstæðismenn töldu eðlilegt 1930. Í dag eru hins vegar tæplega 5800 íbúar á bak við hvern borgarfulltrúa og væru tæplega 8900 ef fækkað yrði niður í 15 á ný.
Hvað myndi svo sú regla, að rétt um níu þúsund manns skuli vera á bak við hvern sveitarstjórarfulltrúa, þýða fyrir önnur sveitarfélög? Í Kópavogi væru fjórir bæjarfulltrúar, þrír í Hafnarfirði og tveir í Garðabæ. Seltjarnarnes ætti ekki nema fyrir hálfum bæjarfulltrúa. Vestfirðir næðu samtals ekki fyrir heilum sveitarstjórnarmanni og ekki heldur Norðurland vestra. Norðurland eystra ætti fyrir þremur og munar þar mest um að Akureyri fengi heila tvo. Austurland næði einum og Suðurland næstum fjórum, þar af Árborg heilum. Á öllu landinu væru 41 sveitarstjórnarmaður. Það væri væntanlega ávísun á skilvirka stjórnsýslu að mati borgarstjórans fyrrverandi.
Vilhjálmur fárast yfir því hve fundir borgarstjórnar séu langir, fjölmiðlar fjalli ekki um þá, og að fundargerðir standist ekki samþykktir um stjórn borgarinnar og fundarsköp borgarstjórnar vegna þess hve margar og langar bókanir komi þar fram. Nú er það engin nýlunda að fundir borgarstjórnar séu langir. Fátt hefur breyst í þeim efnum í áratugi. Borgarstjórinn fyrrverandi mætti svo skoða hverjir það eru sem teygja lopann og leggja fram skriflegar bókanir í löngu máli á fundum borgarstjórnar og nefnda hennar og ráða. Ekki eru það fulltrúar meirihlutans. Flokksfélagar Vilhjálms í Sjálfstæðisflokknum eru iðnir við kolann og vart eftirbátar fulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins í þeim efnum. Gagnrýni borgarstjórans fyrrverandi virðist því beinast að einhverjum öðrum en borgarstjórnarmeirihlutanum.
Vilhjálmur dregur fram gamlar tuggur um slæma fjárhagsstöðu borgarinnar, sem standast ekki skoðun. Staða borgarinnar er sterk, þótt heimsfaraldurinn hafi óneitanlega verið henni kostnaðarsamur. Óhætt er að fullyrða að staða borgarinnar nú er miklum mun betri en þegar íslenska ríkið þurfti að hlaupa undir bagga og bjarga borginni frá yfirvofandi greiðslukrísu eftir að meirihluti Sjálfstæðisflokksins hafði teflt á tæpasta vað með miklum fjárfestingum, meðal annars í byggingu ráðhússins og Perlunnar fyrir rúmum þrjátíu árum.
Þá er óskiljanleg gagnrýni fyrrverandi borgarstjóra á borgina fyrir að selja lóðir á „himinháu verði“ til byggingafélaga sem byggi íbúðir í risastórum háhýsum, sem ungt fólk ráði alls ekki við að kaupa, í stað þess að úthluta lóðum til einstaklinga sem vilja byggja raðhús, parhús eða einbýlishús. Eru það úrræði sjálfstæðismanna í húsnæðismálum ungs fólks? Úthluta bara nógu mörgum lóðum fyrir raðhús, parhús og einbýlishús? Leysir það húsnæðisvanda ungs fólks í Reykjavík?
- Ólafur Arnarson