Erna fékk kaldar kveðjur: Símreikingurinn hækkaði um 100% - Hætti viðskiptum eftir 30 ára samfylgd

„Mér brá í brún um mánaðamótin þegar símareikningurinn minn hækkaði um 100% frá mánuðinum á undan,“ segir Erna Indriðadóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri vefsíðunnar Lifðu núna.

Erna segir þar í pistli frá samskiptum sínum við símafyrirtækið sem hún sagði skilið við á dögunum eftir 30 ára samfylgd. Erna segir að þegar reikningurinn kom hafi hún farið á stúfana og fengið annað tilboð um aðra áskrift með ótakmörkuðum fjölda símtala. Það hafi í sjálfur sér verið frábært en hún hafi þó verið undrandi yfir reikningnum sem hækkaði um 100% milli mánaða. Því vildi hún kanna hvort hægt væri að gera leiðréttingu.

„Nokkru síðar var þeirri beiðni hafnað í pósti. Ég hefði nefnilega fengið sms um þróun símanotkunar minnar reglulega. Og það var að sjálfsögðu rétt. Ég sem var með 500 mínútuna áskrift og 100 sms, fékk þær upplýsingar nokkrum dögum fyrir mánaðamót að ég væri búin að tala í símann í rúmlega 700 mínútur. Að það gæti hækkað reikninginn um 100% hafði hreinlega ekki hvarflað að mér,“ segir Erna.

Eftir að beiðninni var hafnað hringdi hún í símafyrirtækið til að forvitnast frekar um það að beiðni hennar um leiðréttingu hafi verið hafnað. Spurði hún hvort ekkert væri hægt að gera þar sem hún væri búin að eiga í viðskiptum við umrætt fyrirtæki í 30 ár.

„Unga konan er kurteis og segir „Það gilda sömu reglur fyrir alla og skiptir ekki máli hvort þú ert búin að vera í viðskiptum í eitt ár eða þrjátíu ár“, segir hún.“

Erna segir að ekki hafi verið ungu konuna að sakast en hún bað hana að skila því til æðri yfirvalda að henni þættu þetta heldur kaldar kveðjur eftir 30 ára viðskipti.

„Það flaug að mér hvað tímarnir væru breyttir. Að ekki skipti lengur máli að þjónusta viðskiptavini sem hefðu verið í viðskiptum hjá sama fyrirtæki í áratugi. Þá skiptir nefnilega heldur ekki lengur máli, hvar maður hefur sín viðskipti,“ segir Erna en henni var boðið að flytja öll sín viðskipti annað eftir að hafa fengið tilboð sem hún gat ekki hafnað.

„Ég ákvað að skilja við símafyrirtækið mitt eftir þrjátíu ára samfylgd og var eiginlega sama,“ segir hún.

Pistil Ernu má lesa í heild sinni á vef Lifðu núna.