Erfiðast að horfa upp á skipsfélagana vinna með COVID-19

25. október 2020
09:14
Fréttir & pistlar

21 árs gamall háseti, sem var um borð í frystitogaranum Júlíusi Geirmundssyni þegar Covid-hópsýking kom upp í veiðitúr, segir að það hafi verið erfitt að horfa upp á þá veikustu í ferðinni. 22 af 25 skipverjum togarans smituðust í ferðinni.

Arnar Hilmarsson hefur verið háseti í fimmtán túrum á Júlíusi Geirmundssyni en hann tjáði sig um aðstæður á skipinu við RÚV í gær. Skipverjarnir segja að ástandið um borð hafi verið skelfilegt, þeir látnir vinna fárveikir og var bannað að tjá sig við fjölmiðla um veikindin. Útgerðin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að halda áfram með þriggja vikna túrinn eftir að veikindi komu upp á öðrum degi hans.

Arnar segir að þeir sem hafi fyrst orðið veikir hafi verið settir í þriggja daga einangrun. Veiðiferðin hófst þann 26. september. Fim höfðu veikst á skipinu í kringum 6. eða 7. október: „Og í kringum það leyti byrja ég að finna fyrir einkennum. Varst þú þá settur í svona stutta einangrun? Nei, ég var ekki settur í neina einangrun,“ sagði Arnar við RÚV.

Hann segist hafa verið mikið veikur, með svima hausverk, hálsbólgu og hósta.

Erfitt var að horfa upp á félaga sína veika:

„Sá sem varð veikastur er einn harðasti maður, sem ég veit um, og hann lét sig hafa það í einhverjar þrjár vaktir að vinna veikur. Svo var hann einfaldlega orðinn svo slæmur að hann bara gat það mögulega ekki. Það var bara erfitt að horfa upp á hann færa sig upp af bekknum og upp í sjúkraklefa.“

„Þar sem að skipstjórinn hafði samband við sóttvarnalækni í byrjun túrsins þá tókum við eiginlega því sem sjálfsögðu að þetta væri allt gert í samráði við hann,“ segir Arnar um það að hafa ekki verið sendir strax í sýnatöku þegar veikindin komu upp. Hann segir ekki eðlilegt að haldið hafi verið áfram með túrinn með svo marga skipverja veika.

Þegar farið var að landi um síðustu helgi var það ekki vegna sýnatöku heldur var það brælustopp því ekki er hægt að veiða í brælu. Einnig þurfti að taka olíu en þá voru skipverjar líka sendir í sýnatöku.

„Þannig að í rauninni var skimunin þriðja í forgangsröðinni.“

„Það alvarlegasta var að halda mönnum nauðugum við vinnu á meðan þeir voru veikir,“ segir Arnar. „Hegðun Hraðfrystihúyssins Gunnvarar í þessum kórónuvírusskandal núna er í nákvæmu samræmi við hegðun fyrirtækisins gagnvart starfsmönnum hvað varðar öryggi og heilsu starfsmanna í fortíðinni.“

Hann segist ekki hræddur um að missa vinnuna eftir að hafa tjáð sig opinberlega um málið: „Tjáning mín á málinu er óendanlega verðmætari en starf mitt þarna um borð.“