Er átakatími aftur runninn upp í Sjálfstæðisflokknum?

Átakaskjálftinn í Sjálfstæðisflokknum vegna prófkjörs í Reykjavík um helgina er áþreifanlegur. Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir takast á um fyrsta sætið og þar með leiðtogasæti flokksins í borginni. Enginn þorir af afskrifa Guðlaug Þór í þessum slag og sama gildir um Áslaugu Örnu en þau beita að vissu marki mismunandi aðferðum í baráttunni. Á þessari stundu er talið að hvort þeirra sem er gæti borið sigur úr bítum.

Kosningabaráttan hefur verið stigvaxandi og síðustu dagana hefur hlaupið aukin harka í slaginn. Áslaug Arna hefur farið út í að sækja stuðning til annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins. Einkum hefur verið höfðað til kvenna í Samfylkingunni og öðrum vinstri flokkum og einnig til námsmanna í menntaskólum. Þetta fólk hefur verið hvatt til að ganga í flokkinn, kjósa „rétt“ og segja sig svo úr flokknum. Gegnheilir sjálfstæðismenn telja að þessi aðferð muni ekki gagnast flokknum í komandi kosningum og eru ekki hrifnir af því að frambjóðendur sækist eftir ábyrgðarstöðum í flokknum í boði andstæðinga flokksins af vinstri vængnum. Þessi aðferð er ekki ný af nálinni en hefur ávallt verið umdeild enda hlýtur að vera umdeilanlegt að sækja vald sitt til andstæðinga.

Guðlaugur Þór heldur sinni baráttu úti af miklum krafti með því að sækjast eftir stuðningi flokksfélaga. Hann er með vaska sveit í kringum sig sem gefur ekkert eftir. Það hefur gagnast honum vel fram að þessu en nú veit enginn hvort það muni duga að þessu sinni. Ljóst er að fylkingar hafa skapast innan flokksins á bak við báða frambjóðendur. Margvíslegar sögur ganga um þá liðsskipan alla. Svo virðist sem vaxandi harka hafi hlaupið í baráttuna og ýmsir spá því að flokkurinn verði ekki samur eftir.

Þeir sem eldri eru muna eftir áralöngum átökum milli Geirs Hallgrímssonar og Gunnars Thoroddsen innan flokksins. Ósætti ríkti um árabil og flokkurinn nötraði af átökum stafnanna á milli, einkum í prófkjörum og á landsfundum. Átökin náðu hámarki vorið 1980 þegar Gunnar Thoroddsen varð forsætisráðherra í ríkisstjórn með Framsókn og Alþýðubandalagi, studdur af nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Með þessari stjórnarmyndun niðurlægði Gunnar andstæðinga sína í flokknum.

Á seinni árum hefur gengið illa að halda flokknum saman. Kvarnast hefur úr fylgi flokksins meðal annars vegar stofnunar Viðreisnar og hins vegar Miðflokksins þannig að fylgi flokksins mælist nú yfirleitt rúm 20 prósent í stað þeirra 35 til 40 prósenta sem áður var. Því koma þessi hatrömmu átök í Reykjavík á óvart. Ætla forystumenn flokksins aldrei að læra af mistökum og átökum liðins tíma?  Áður var það „Stétt með stétt“ en nú er það frekar „Valdastéttin mín“.

Ýmislegt hefur komið fram í þessari kosningabaráttu sem vekur furðu. Öllum að óvörum blandaði Bubbi Morthens sér í slaginn í gær og lýsti yfir stuðningi við Áslaugu Örnu. Bubbi er gegnheill vinstrimaður og hefur ekki farið dult með sósíalískar skoðanir sínar í gegnum tíðina. Ekki þarf annað en að rýna í lagatexta hans þar sem hann hefur ekki vandað auðvaldinu og hægra liði kveðjurnar. Varla getur stuðningur harðs sósíalista talist frambjóðanda í Sjálfstæðisflokknum til framdráttar. Eða trúir því einhver að Bubbi Morthens vilji Sjálfstæðisflokknum vel?

Hvernig verður umhorfs í Sjálfstæðisflokknum um helgina þegar úrslitin liggja fyrir? Önnur fylkingin mun fagna sigri - en hvernig mun hin fylkingin taka ósigri?

Er jafnvel að renna upp nýr átakatími í flokknum í líkingu við vígaferlin milli Gunnars Thoroddsen og Geirs Hallgrímssonar?

- Ólafur Arnarson