Enn molnar undan ríkisstjórninni samkvæmt nýrri könnun

25. júní 2020
13:18
Fréttir & pistlar

Það er með ólíkindum að ríkisstjórnin skuli ekki mælast betur í skoðanakönnunum en raun ber vitni í ljósi þeirrar athygli sem hún fær út á veiruvandann. Það er sögulega þekkt að ríkisstjórnir njóta mesta mögulega trausts í miklum mótbyr eins og styrjöldum og öðrum áföllum.

Það virðist ekki gilda um ríkisstjórn Íslands um þessar mundir. Fyrir því eru tvær meginástæður:

  • Ríkisstjórnin var búin að missa mikið traust áður en veiruvandinn skall á.
  • Ríkisstjórnin hefur gert fjölda mistaka í kjölfar vandans og svikið loforð.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti í vikunni um fylgi flokka ef kosið yrði til Alþingis núna, fengi Sjálfstæðisflokkurinn 23 prósent fylgi og 16 þingmenn kjörna sem er það sama og í kosningunum 2017. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir tapa miklu fylgi, Framsókn fer úr átta þingmönnum í fimm og Vinstri græn úr ellefu í átta þingmenn.

Með þessu væri ríkisstjórnin fallin.

Samfylking, Viðreisn og Píratar bæta verulega við sig fylgi.

Kjarni máls er þessi: Í mótbyr ná ríkisstjórnarflokkarnir ekki að bæta við sig fylgi vegna þess að kjósendur treysta þessu fólki ekki.

Þetta er góð vísbending um spennandi tíma framundan í stjórnmálum á Íslandi.