Enn ein könnunin sýnir að ríkis­stjórnin er rúin trausti

Ríkis­stjórnin hefur tapað níu þing­mönnum frá síðustu kosningum og er komin niður í 26 þing­menn ef hafði 35 þing­menn á bak við sig þegar ríkis­stjórnin var mynduð í árs­lok 2017.

Flokkur Katrínar Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra er í frjálsu falli og hefur tapað um helmingi fylgisins á kjör­tíma­bilinu. Flokkurinn fékk 11 þing­menn kjörna en næði nú einungis 6 þing­mönnum sam­kvæmt nýrri skoðana­könnun Zenter þar sem úr­tak var 2.300 manns. Með því að missa fimm þing­menn myndu Vinstri græn missa einn þing­mann í Norð-Austur kjör­dæmi, annan í SV-kjör­dæmi og þing­menn sína í Suður­kjör­dæmi og NV-kjör­dæmi. Þá félli einn þing­maður þeirra í Reykja­vík.

Miðju­flokkarnir koma sterkir út. Sam­fylkingin næði 17,2 prósent fylgi og fengi ellefu menn kjörna en hlaut sjö þing­sæti í kosningunum. Við­reisn fengi átta menn kjörna í stað fjögurra í kosningunum. Þá bæta Píratar einnig við sig og fengju átta þing­menn en höfðu sex eftir síðustu kosningar. Miðju­flokkarnir fengju þannig einum þing­manni meira en nú­verandi ríkis­stjórnar­flokkar.

Sjálf­stæðis­flokkurinn er að festast í 20 prósent fylgi og næði fjór­tán þing­mönnum og tapaði því tveimur sætum. Fram­sókn mælist með 8,2 prósent fylgi og sex þing­menn eins og Mið­flokkurinn sem fengi 8,9 prósent. Flokkur fólksins héldi fylgi sínu og fengi fjóra þing­menn kjörna eins og í síðustu kosningum.

Sósíal­ista­flokkur Gunnars Smára og Sól­veigar Önnu fengi engan þing­mann kjörinn en fylgi flokksins mælist nú 4,5 prósent sem dugar ekki til að fá mann kjörinn á þing.

Það sem vekur mesta at­hygli við þessa könnun er að for­sætis­ráð­herra hafi misst helming fylgis Vinstri grænna á kjör­tíma­bilinu. Kjós­endur virðast ekki treysta henni lengur til for­ystu. Þá fer styrkur Evrópu­sinnuðu miðju­flokkanna ekki fram hjá neinum og eins hitt að Sósíal­ista­flokkurinn er ekki að ná neinu flugi og fengi engan mann kjörinn ef marka má skoðana­könnun Zenter.