„Enn bullar ráðherra menntamála“

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari og nefndarmaður í Vinnuumhverfisnefnd Kennarasambands Íslands, gefur lítið fyrir svör ráðherra um stráka í skólakerfinu.

„Hún heldur áfram að bulla. Minnsta mál að setja falleg orð á blað, það geta allir,“ skrifar Helga Dögg á bloggi sínu.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ræddi stöðu drengja innan skólakerfisins í óundirbúnum fyrirspurnum eftir að Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, þingmaður Flokks fólks­ins, vakti at­hygli á málinu í gær, þann 18. febrúar.

„Í fyrsta lagi höfum við samþykkt eitt leyfisbréf, þvert á öll skólastigin, til þess að efla stöðu kennara og það eru kennararnir sem koma og kenna börnunum okkar. Það var búið að reyna að fara í þessar breytingar í heil tíu ár en það tókst núna fyrir tveimur árum.

Í öðru lagi þá erum við búin að fjölga kennaranemum um 40 prósent og við erum með sérstaka áherslu á unga drengi í rannsóknum. Þetta var samþykkt núna fyrir nokkrum mánuðum.

Í þriðja lagi langar mig til að nefna nokkur verkefni sem miða sérstaklega að þessu. Eitt er í Vestmannaeyjum sem við erum að vinna með prófessornum Hermundi, þar sem við erum að fjalla um stöðu drengja og við erum að breyta menntakerfinu og gefa okkur það að við ættum að leggja meiri áherslu á hreyfingu og grunn lestrarfærni.

Í fjórða lagi vil ég nefna skólaþróunarteymi sem eiga að fjalla sérstaklega um þetta og höfum þegar sett á laggirnar.

Í [fimmta] lagi þá höfum við mótað stefnu um börn af erlendum uppruna og að sjálfsögðu eru drengir þar líka vegna þess að við vitum að við þurfum að aðstoða sérstaklega þessa hópa og við erum að gera það. Við erum að gera það núna. En við erum líka að móta stefnu til framtíðar þar sem öll börn á Íslandi fái jöfn tækifæri og ég legg höfuðáherslu á þetta. Við erum búnir að gera mjög mikið og við ætlum að halda áfram að gera enn meira.“

Staða drengja hefur löngum verið til umræðu, bæði á netheimum og á Alþingi. Átta þingmenn Samfylkingarinnar hafa til að mynda lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að mennta - og menningarmálaráðherra undirbúi og leggi fram aðgerðaáætlun til að styrkja stöðu drengja í skólakerfinu.

„Það er ljóst að einhvers staðar er pottur brotinn og nauðsynlegt er að ráðast í aðgerðir til þess að bæta stöðu drengja í skólakerfinu,“ segir í tillögunni.

Helga Dögg grunnskólakennari.

Sjá einnig: Hefðu gott af að vera ári lengur í leik­skóla

Helga Dögg telur að eitt leyfisbréf hafi ekkert með málið að gera og eins hafi ekkert í menntastefnu til 2030 með stöðu stráka í skólakerfinu að gera.

„Ekkert sem menntamálaráðherra segir og gerir hefur með stráka í skólakerfinu að gera. Hún heldur áfram að bulla. Minnsta mál að setja falleg orð á blað, það geta allir. Erfiðara að gera eitthvað raunhæft í málunum og sýna í verki að ráðherra hugsi um stöðu stráka í skólakerfinu. Held að ráðherra sé svo í mun að falla í kramið hjá (öfga)femínistum að hún talar ekki af viti um stöðu stráka í skólakerfinu,“ skrifar hún.

Ingibjörg Þórðardóttir.

Er það skólakerfinu að kenna?

Ingibjörg Þórðardóttir framhaldsskólakennari veltir einnig upp spurningum hvort skólakerfið hafi í raun brugðist drengjum í grein sem hún birti í Austufrétt, fréttavef Austurlands.

„Bera skólastjórar og kennarar ábyrgð á þessari stöðu drengja? Nei, það væri mikil einföldun að halda því fram. Það er í raun samfélagið allt sem þarna hefur áhrif. Fyrirmyndir drengja birtast gjarnan sem kærulausir töffarar sem þurfa lítið að hafa fyrir eigin velgengni og þeir virðast frekar stóla á eigin hæfileika en dugnað og seiglu.“
Bendir hún á að á sama tíma og drengir glíma við ólæsi og agaleysi glíma stúlkur við kvíða og lélega sjálfsmynd.

„Er það þá líka skólakerfinu að kenna? Eða eru þar aftur fyrirmyndirnar sem senda út röng skilaboð? Fyrirmyndir stúlkna eru gjarnan duglegar, fallegar, kurteisar og blíðar. Það er ekki einfalt að standa undir slíkum kröfum.“

Segir hún samfélagið og foreldra bera þarna mikla ábyrgð. „Setjum ekki ósanngjarna ábyrgð á herðar dætra okkar og munum að það er mjög mikilvægt að drengir hafi skyldur sem snúa ekki aðeins að þeim sjálfum. Ef við teljum eðlilegt að dætur okkar aðstoði t.d. við almenn heimilisstörf þá verðum við að láta það sama gilda fyrir syni okkar.“