Elliði vildi að hann hefði lært meira: Langar bara að komast á pöbbinn og horfa á hand­bolta

27. nóvember 2020
20:00
Fréttir & pistlar

Elliði Vignis­son, bæjar­stjóri í Ölfusi, segist óska þess að hann hefði lært meira af afa sínum sem upp­lifði tímana tvenna á ævi sinni. Elliði skrifar skemmti­legan pistil í Morgun­blaðið í dag þar sem hann skrifar um muninn á sér og afa sínum.

Afi Elliða, Guðni Kristófers­son, fæddist árið 1903 og tók fyrstu skrefin á moldar­gólfi í torf­bæ. Hann var 11 ára þegar fyrri heims­styrj­öldin hófst, 15 ára þegar frosta­veturinn mikli skall á, Katla gaus og spænska veikin reið yfir. Hann var 26 ára þegar kreppan mikla skall á og þrí­tugur þegar hann missti dóttur sína, Auð­björgu, af slys­förum.

„Þegar afi var 36 ára skall á önn­ur heims­­styrj­­öld. Áður en yfir lauk höfðu 60 millj­ón­ir manna lát­ist í þess­um á­tök­um. Hér á landi lét­ust 159 Ís­lend­ing­ar til við­bót­ar við hina tugi millj­ón­anna sem lét­ust er­­lend­is. Hann var 42 ára þegar þess­ari styrj­­öld var lokið. Á­fram lifði afi,“ segir Elliði en hörmungarnar voru ekki búnar.

Hann var 47 ára þegar Kóreu­stríðið braust út, 52 ára þegar Víet­nam­stríðið braust út, 64 ára þegar borgara­styrj­öldin í Nígeríu geisaði, 75 ára þegar Afgan­istan logaði í ó­friði, 88 ára þegar stríðið skall á í Bosníu og 91 árs þegar borgara­styrj­öldin í Rúanda skall á. Á annan tug milljóna manna létust í þessum stríðum. Elliði tekur fram að þetta voru bara stríðin og á þá eftir að nefna aðrar hörmungar, til dæmis af völdum náttúru­ham­fara og far­sótta.

„Afi fædd­ist árið 1903 og dó árið 1996, 93 ára gam­all. Ég full­yrði að hann tók þessu öllu, og langt­um fleiru, af full­komnu æðru­­leysi. Það hvorki datt af hon­um né draup. Hann kvartaði aldrei held­ur vann sín verk af sam­visku­­semi í sátt við guð og menn. Barmaði sér ekki þrátt fyr­ir hör­m­ung­ar,“ segir Elliði sem endar pistilinn á þessum orðum:

„Ég var hon­um bless­un­ar­­lega sam­­ferða öll mín mót­un­ar­ár. Ég vildi að ég hefði lært meira. Ég nefni­­lega nenni ekki þessu Co­vid-veseni. Mig lang­ar að kom­ast á pöbb­inn og geta horft á hand­­bolta.“