Elísa­bet varar við Prime: „Það er verið að fífla ykkur“

Elísa­bet Reynis­dóttir næringar­fræðingur mætti í Bítið á Bylgjunni í morgun og ræddi tísku­drykkinn Prime, sem hefur undan­farið slegið í gegn hjá yngri Ís­lendingum. Drykkurinn inni­heldur 900 mí­krógrömm af A-víta­míni, sem er ráð­lagður dag­skammtur fyrir full­orðna, en of mikið A-víta­mín getur valdið al­var­legum eitrunar­á­hrifum. Elísa­bet segir að for­eldrar eigi að vara börnin sín við neyslu drykkjarins.

Prime er einn vin­sælasti orku­drykkur heims um þessar mundir, en vin­sældirnar má rekja til sam­fé­lags­miðla. Inter­net­per­sónu­leikarnir KSI og Logan Paul eru fram­leið­endur drykkjarins. Langar raðir mynduðust í verslunum þegar nýjar sendingar af Prime komu í verslanir og var drykkurinn oft á tíðum upp­seldur á landinu. Vin­sældirnar urðu það miklar að tómar dósir voru orðnar vin­sæl sölu­vara.

Elísa­bet sagði að drykkurinn sé hlaðinn að efnum sem væru skað­leg í of miklu magni. Að hennar sögn er drykkurinn vel markaðs­sett drasl.

„Þessi markaðs­setning er snilld. Ég skemmti mér mjög vel í gær að skoða þetta og ég hugsaði að þeir eiga að fá verð­laun fyrir geggjaða markaðs­setningu. Það er það sem þessi drykkur er, geggjuð markaðs­setning,“ sagði Elísa­bet, og hélt á­fram:

„Næringar­lega seð er hann al­gjört drasl. Það sem er al­var­legt þarna er sítrónu­sýra sem getur valdið skaða í slím­húðinni. Börn með astma er í hættu, börn með ristilvanda­mál eru í hættu. Við gleymum að horfa á aðrar inni­halds­lýsingar sem geta skaðað börnin,“ sagði Elísa­bet.

Elísabet sagði að hún geti huggað sig við að sjá amínó­sýrur meðal inni­halds­efna, en þau hafa já­kvæð á­hrif á tauga­boð­efnin. Það eru víta­mínin sem eru ekkert sér­stök að hennar sögn.

„Ég skil ekki eigin­lega hvað þau eru að gera í þessum drykk.“

Elísa­bet vill að börn fái betri fræðslu um orku­drykki og markaðs­setningu.

„Það er rosa­lega skrítið hvernig þetta er hæpað, aug­lýsingin nær til barnanna. Mér finnst skrýtið að þetta sé aldrei gripið inn í. Af hverju kennum við ekki börnum hvernig markaðs­setning virkar. Það er verið að fífla ykkur,“ sagði Elísa­bet.

„Ef þið viljið varna því að börnin ykkar fái auka slím­húð upp á astma, upp á meltingar­sjúk­dóma, þá myndi ég sleppa þessum drykk, því sítrónu­sýran er í miklu magni þarna. Það er það sem ég horfi á,“ sagði Elísabet.