Elín birtir sláandi mynd frá gjörgæsludeild: „Þessi mynd ætti að hjálpa þeim sem skilja ekki“

Elín Tryggvadóttir, hjúkrunarfræðingur á Landspítalanum, hefur birt sláandi mynd sem sýnir starfsumhverfi gjörgæsluhjúkrunarfræðings.

„Sjáið lyfjadælurnar, snúrurnar túpurnar, tölurnar, græjurnar, skjána, öndunarvélina,“ segir Elín í pistli sem hún skrifar á Facebook. Hún segir að myndin sé ekki frá Íslandi en þetta sé alveg eins og hér á landi.

„Þessi mynd ætti að hjálpa þeim sem skilja ekki hvers vegna við sleppum ekki bara veirunni lausri að skilja aðeins betur að það er ekki hægt,“ segir hún. „Það stekkur enginn bara eins og ekkert sé inní þetta umhverfi án langrar aðlögunar.“

Elín bendir á að nú séu 8 manns með covid á gjörgæslu. „Fyrir covid tókst okkur að hafa 10-12 opin pláss á LSH fyrir gjörgæslusjúklinga. Þau voru oft öll í notkun. Það má líka ekki gleyma því að þrátt fyrir covid heldur fólk áfram að veikjast alvarlega og lenda í slysum. Hér væri þörf fyrir feitan tékka til að manna þessa mikilvægu deild.“