Eiríkur ósáttur við enskuslettur kynna Söngvakeppninnar: „Þetta er óvirðing við hlustendur“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, var ekki hrifinn af miklum enskuslettum kynnanna þriggja á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar í gærkvöldi. Hann segir í pistli sínum í dag að sletturnar hafi verið dæmi um óvirðingu við íslenskuna og alla áhorfendur heima í stofu.

Margir hafa einmitt gagnrýnt málfar kynnanna eftir kvöldið á samfélagsmiðlum. Þau Fannar Sveinsson, Benedikt Valsson og Björg Magnúsdóttir voru kynnar kvöldsins og segir Eiríkur gagnrýnina á þau réttmæta:

„Ég hef yfirleitt ekki haft miklar áhyggjur af tökuorðum og enskuslettum í íslensku – sletturnar koma og fara, en tökuorð sem þörf er á og haldast í málinu laga sig yfirleitt að málkerfinu að meira eða minna leyti. En það eru takmörk fyrir öllu, og það sem mér fannst verst í málnotkun kynnanna var mikill fjöldi enskuslettna sem voru algerlega óþarfar – orða sem eiga sér ágætar samsvaranir í íslensku sem legið hefði beint við að nota,“ segir hann.

Hann segir málið samskiptatæki og grundvallist á ákveðnu samkomulagi málhafa. Til að það geti gegnt hlutverki sínu þurfi að treysta því að viðmælendur noti málið og sama hátt og maður sjálfur.

„ Í venjulegu samtali er þetta yfirleitt ekki vandamál – ef við erum ekki viss um merkingu einhvers sem viðmælandinn segir getum við alltaf beðið um skýringu. En þessu er vitanlega öðruvísi farið þegar fólk talar í fjölmiðlum. Áheyrendur hafa enga möguleika á að óska skýringar og sitja uppi með sinn misskilning eða enda jafnvel alveg úti á túni og hafa engin ráð – önnur en kvarta á Facebook sem ólíklegt er að skili miklum árangri“

Loks segir hann:

„Fólk sem hefur það að atvinnu að koma fram í fjölmiðlum ber því allt aðra og mun meiri ábyrgð á málnotkun sinni en almenningur. Í þáttum um sérhæfð efni sem hafa afmarkaðan markhóp er kannski ekkert óeðlilegt að sletta dálítið og nota erlend orð sem búast má við að áheyrendur þekki, enda er þá oft um að ræða orð sem ekki eiga sér íslenskar samsvaranir. En öðru máli gegnir um dagskrárliði eins og Söngvakeppnina þar sem vitað er að áhorfendur eru mjög margir, af öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum. Þar er í raun engin afsökun fyrir að nota slettur sem þar að auki eru alveg óþarfar – eins og mér heyrðist oftast vera í þessu tilviki. Vegna stöðu sinnar og hlutverks ber Ríkisútvarpið vitaskuld alveg sérstaka ábyrgð í þessu sambandi.

Þetta er óvirðing við íslenskuna. En þetta er líka óvirðing við hlustendur. Það skilja nefnilega ekki allir ensku þótt svo sé oft látið í veðri vaka. Með því að sletta ensku ótæpilega í þætti sem er ætlaður allri þjóðinni er stuðlað að málfarslegri stéttaskiptingu – skiptingu í fólk sem er „hipp og kúl“ (svo að notuð sé enskusletta sem mér er töm en ég veit ekki hvort allir þekkja), unga fólkið sem skilur enskusletturnar og hlær á réttum stöðum, og svo öll hin – eldra fólk og aðra hópa sem af ýmsum ástæðum hafa ekki tileinkað sér tískuslettur samtímans. Við eigum á hættu að þetta fólk fyllist minnimáttarkennd eða skömm yfir því að skilja ekki flotta fólkið. Látum það ekki gerast.“