Eiríkur: „Hugmyndir um séríslenska snilli hafa ekki alltaf elst sérlega vel“

Sitt sýnist hverjum um hvort rétt sé að skima alla sem koma til landsins fyrir COVID-19. Sigurður Guðmundsson, smitsjúkdómalæknir og fyrrverandi landlæknir, telur tilefni til að endurskoða landamæraskimunina og jafnvel hætta henni. „Við höfum núna skimað 22 þúsund manns og það hafa komið í mesta lagi fimm virk smit,“ sagði Sigurður í Bítinuá Bylgjunni í morgun. Þegar faraldurinn geisaði hér á landi í vor hafi flest smit fundist við að taka sýni úr þeim sem voru með einkenni.

Eiríkur Bergmann Einarsson, stjórnmálafræðingur, tekur í sama streng á Facebook. Best sé að hætta þessu og rekja þau smit sem greinist.

„Önnur lönd standa ekki í þessu. Ekki einu sinni þau sem hafa fulla burði til þess. Sagan sýnir að hugmyndir um séríslenska snilli hafa ekki alltaf elst sérlega vel,“ segir Eiríkur. „Framan af faraldrinum sagði sóttvarnarlæknirinn okkar að varnir á landamærum hefðu ekkert upp á sig. Kannski ekkert fremur en milli landshluta. Mér fannst það trúverðugt þá og hef ekki enn heyrt hvað hefur breyst í þeim efnum.“

Hann minnir á að hann sé ekki sérfræðingur í smitsjúkdómum en hann sé að benda á efasemdir margra sérfræðinga.

Egill Helgason, fjölmiðlamaður, segir hinn valkostinn vera að fá meira magn af veirunni inn í landið. „

„Öll þessi smit hefðu getað komið af stað hópsýkingu. Þá erum við að tala um að haustið gæti verið í uppnámi í skólum, heilbrigðiskerfinu og atvinnulífinu,“ segir Egill. „Dæmunum þar sem menn missa faraldurinn aftur úr böndum fjölgar út um allan heim. Ferðamennska skiptir afar litlu máli í þessu samhengi - að hægt sé að lifa hér eðlilegu lífi í haust og vetur.“