Eiríkur ekki sáttur: „Hvers lags botnlaust andskotans rugl er þetta?“

Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, er allt annað en sáttur við íslensk yfirvöld og stefnu þeirra í innflytjendamálum.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í gær stendur til að vísa fjölmörgum flóttamönnum úr landi á næstu vikum. Brottvísanir hafa staðið í stað vegna Covid-19 faraldursins en nú þegar þjóðir heimsins eru farnir að afnema reglur á landamærum sínum opnast gáttin á nýjan leik fyrir stjórnvöld.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður og nýkjörinn borgarfulltrúi, lýsti því í samtali við Fréttablaðið að um væri að ræða einstaklinga, í mörgum tilfellum, sem fest hafa rætur hér á landi. Þetta séu einstaklingar sem hafa fengið vilyrði um vinnu, eignast barn og myndað tengsl við íslenskt samfélag.

Eiríkur er ekki sáttur við þessa stöðu og bendir hann á að þetta skjóti skökku við í ljósi þess að það vantar fólk á Íslandi.

„Á sama tíma og alls staðar vantar fólk, og ljóst að okkur mun vanta tugi þúsunda til starfa á næstu árum, er verið að senda úr landi fólk sem er komið hingað og vill vera hér. Hvers lags botnlaust andskotans rugl er þetta?,“ segir Eiríkur og deilir fréttum íslenskra fjölmiðla af málunum í gær.

Rithöfundurinn Bragi Páll Sigurðarson tók í svipaðan streng í gær og benti á að hér vanti fólk í vinnu. Fréttablaðið sagði frá skrifum hans í gær.

„Fólk með alls­konar menntun og reynslu. Fólk sem vill setjast hér að með fjöl­skyldur sínar. Fólk sem er að flýja hræði­legar að­stæður. Sem hefur upp­lifað meiri hrylling en orð fá lýst,“ sagði hann og bætti við að þessu fólki ætli ríkið að moka úr landi.

„Aftur til Grikk­lands þar sem ekkert tekur á móti þeim nema gatan,“ sagði Bragi og rakti því næst sögu vinar síns sem kominn er með vinnu, hús­næði og bíl.

„Vill ekki krónu frá Ís­lenska ríkinu. Þráir ekkert heitar en annað tæki­færi til að hefja hér nýtt líf með fjöl­skyldu sinni. En ríkið segir nei. Segir farðu. Okkur vantar fólk. Bara ekki fólk sem er ekki hvítt.“