Einn ríkasti Ís­lendingurinn keypti gömlu höllina hans Skúla – Sjáðu myndirnar

Davíð Helga­son, einn af stofn­endum Unity Technologies, hefur fest kaup á einu glæsi­legasta ein­býlis­húsi landsins, fast­eignina við Hrólfs­skála­vör 2.

Markaðurinn greinir frá þessu í dag.

Húsið sem um ræðir var áður í eigu Skúla Mogen­sen, stofnanda og for­stjóra WOW air, en í septem­ber á þessu ári eignaðist Arion banki það. Húsið er 630 fer­metrar að stærð og á þremur hæðum. Í því er meðal annars að finna fjöl­skyldu­her­bergi, gufu og líkams­ræktar­að­stöðu. Þá eru tveir heitir pottar fyrir utan.

Heimildir Markaðarins herma að Davíð hafi greitt á sjötta hundrað milljónir króna fyrir húsið.

Davíð er sem fyrr segir einn af stofn­endum Unity Technologies en markaðs­virði þess er nú 41,7 milljarður Banda­ríkja­dala. Í frétt Markaðarins kemur fram að Davíð sé einn af ríkustu nú­lifandi Ís­lendingunum og er eignar­hlutur hans í fé­laginu metinn á rúma 200 milljarða króna.

Húsið við Hrólfs­skála­vör 2 var hannað af Ste­ve Christer og Mar­gréti Harðar­dótt­ur hjá Stu­dio Granda. Gríma Björg Thoraren­sen, unnusta Skúla, og Selma Ágústs­dóttir sáu um innan­­húss­hönnun þess.

Myndir af þessu glæsilega húsi má sjá hér fyrir neðan.