Einfeldni

Dagfari 13. Sept. 2017
 
Bróðir Náttfari kann ekki mikið fyrir sér í lögmálum stjórnmálanna þegar hann fjallar um Sigmund Davíð og formannsframboð Sigurðar Inga. Hugsun hans er of einföld. Flokkurinn skiptir auðvitað miklu meira máli en einhver kenning um að orð skulu standa.
Dagfari man eftir smá sögu sem kunningi hans sem var flæktur í stjórnmál um tíma sagði. Hún greinir frá því þegar Churchill leiddi ungan Íhaldsþingmann inn í sal neðri deildar breska þingsins. Hann á að hafa sagt: Þarna megin  sitja andstæðingarnir. Þeir munu alltaf hvæsa á þig.  Hérna  megin sitja okkar menn. Þeir munu alltaf stinga þig í bakið.
Auðvitað átti Sigmundur Davíð að átta sig á því strax þegar Sigurður Ingi gaf þetta loforð í vor sem leið um að fara ekki gegn honum að hann meinti ekkert með því. Sigurður Ingi sveik Geir Haarde í landsdómsmálinu á sínum tíma og varð bara maður að meiri þegar kom að næstu ríkisstjórnarmyndun.
Ef Sigmundur Davíð hefði kunnað eitthvað fyrir sér í pólitík hefði hann farið í að grafa undan Sigurði Inga í stað þess að fara um landið og reyna að afla sjálfum sér fylgis.
Aðferð Sigurðar Inga er löngu þekkt og viðurkennd í öllu pólitísku starfi. Hann ætlaði að láta almennu flokksfólki það eftir að reka hnífana í bakið á formanninum. Síðan gat hann komið. Það eina sem fór úrskeiðis hjá Sigurði Inga var að á Akureyrarfundinum um síðustu helgi höfðu of fáir lagt að formanninum. Hann varð því að stíga fram sjálfur með sinn kuta.
Örlög Sigmundar Davíðs í sæti formanns Framsóknarflokksins eru ráðin. Hann á  bara tveggja kosta völ. Annað hvort fellur hann fram á eigið sverð eða hann fellur fyrir hnífstungum samherjanna á flokksþinginu. 
Ef til vill gildir einu hvora leiðina hann velur. En velji hann síðari kostinn gætu hnífarnir þó snúist fyrr gegn eftirmanninum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir þyrfti þá ekki að bíða eins lengi eftir því að taka við. Hún er líklegasti framtíðarformaðurinn.