Einar spyr Þórólf út í takmarkanir: „Meiri líkur á því að vinna í lottó heldur en að smitast af Covid“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi í kvöld en umræðuefni kvöldsins sneri að takmörkunum vegna COVID-19 heimsfaraldursins. Tilslakanir innanlands taka gildi á miðnætti og eru í gildi til 17. mars en þar er kveðið á um 50 manna samkomubann.

Þrátt fyrir tilslakanirnar spurði Einar hvað þyrfti að gerast til að slakað yrði enn frekar á takmörkunum og vísaði til þess að innanlandssmit utan sótkvíar hafi ekki komið upp síðan 2. febrúar og fyrir það hafi eitt smit greinst 21. janúar. Þá vakti hann athygli á því að það hefðu ekki verið færri í sóttkví síðan síðasta sumar.

„Tölfræðingarnir segja að það séu meiri líkur á því að vinna í lottó heldur en að smitast af Covid á Íslandi í dag, af hverju erum við enn þá með svona miklar takmarkanir?,“ spurði Einar.

Þórólfur svaraði aftur á móti með því að Ísland hafi einmitt náð þessum árangri með tilslökunum og það hafi sýnt sig, bæði hér á landi og erlendis, að það geti verið hættulegt að fara of hratt í tilslakanir. Þá væri óráðlegt að ráðast í frekari tilslakanir á þessum tímapunkti.

„Þetta eru svona tiltölulega lítil skref, sumum finnst þetta stór skref og sumum finnst þetta lítil skref en mér finnst þetta hæfilegt. Mér finnst að við eigum að fara varlega frekar en að demba okkur út í stóru laugina og slaka allt of mikið á,“ sagði Þórólfur.

Þáttinn í heild sinni má nálgast hér.